Rosa Parks

Fyrir nokkrum vikum var í strætó hér í Columbus með Önnu Laufeyju. Á auglýsingaspjöldum í vagninum vorum við minnt á að minnast Rosa Parks og hennar framlags til réttindabaráttunnar. Það sem hins vegar stakk mig var sú pólítíska ranghugsun að framlag hennar hefði átt þátt í því að strætó hér í Columbus er “all-Black”. Þannig voru ég og Anna einu farþegarnir í vagninum í sem ekki voru African-American. Hvítt fólk getur ekki stokkið sagði í góðri mynd, en þeir virðast ekki heldur taka strætó.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá frétt um hlutfall svarta karlmanna á aldrinum 25-29 ára í fangelsum hér í BNA. Það er nefnilega svo að jafnræðið er ekki til staðar. En hvers vegna ekki?
Á heimasíðu Columbus Dispatch er hægt að sjá afleidda síðu af greatschools.net. Á þeirri síðu er m.a. hægt að fletta upp opinberum grunnskólum í nágrenni við heimili sitt og sjá hvernig þeir standa í samanburði við aðra. Þegar ég skoðaði skólana í nágrenni við mig, var munurinn á árangri gífurlegur eftir því hvort ég hélt í austur inn í Bexley bæ eða skoðaði skóla vestan við mig. Þannig ná 89% barnanna tilskyldum árangri í 3. bekkjar stærðfræði í Cassingham Elementary (sem er í 0.7 mílna fjarlægð í austur) en einungis 25% barnanna í Fairwood Alternative (vestur í 0.6 mílna fjarlægð) ná sama prófi. Sambærilegur munur er á öðrum skólum og öðrum prófum. Það sem einnig er sláandi er að í Cassingham eru 96% hvít, meðan hlutfallið í Fairwood er rétt um 2%. Með öðrum orðum skólakerfið hér í þessum hluta mid-Ohio er því sem næst algjörlega skipt eftir hörundslit.
Þessi skipting byggir því sem næst einvörðungu á peningum. Til að geta sent barn í Cassingham þarftu að búa austan megin við Alumn Greek ána. Húsnæði þeim megin er a.m.k. 4-5 sinnum dýrara en “sambærilegt hús” á vesturbakkanum. Þannig eru möguleikar barna á að verða eitthvað algjörlega háð afkomu og forgangsröðun foreldranna. Möguleikarnir á að vinna sig upp, komast austur yfir eru því sem næst engir. Þau sem alast upp vestan megin án möguleika á menntun hafa fá tækifæri í lífinu. Kannski eru glæpaklíkurnar eini vinnuveitandinn sem gerir ekki kröfu um BA-próf.