Flutt á Sæludögum í Vatnaskógi og í námskeiði um prédikunarfræði við Háskóla Íslands einhvern tímann á síðustu öld. Lítillega lagfært með tilliti til málfars og þroska.
Fyrir nokkrum árum var ég að tala við fáeina unglinga og það kom til tals hvernig Guð væri.
„Ég held að Guð sé gamall karl með skegg,“ sagði einn. „Guð er allt,“ sagði annar. „Guð er svona einhvers konar þoka,“ „Guð er þetta,“ „Guð er hitt“ og „Guð er fyrir mér,“ sagði ein stelpan, „Guð er fyrir mér risastór ljósblár bangsi með bleikt hjarta á maganum.“
Hvað átti stelpan eiginlega við? Af hverju sá hún Guð sem risastóran ljósbláan bangsa með bleikt hjarta á maganum?
Biblían notar oft líkingamál í umfjöllun sinni um Guð. Þessar líkingarnar gefa litla mynd af Guði og saman hjálpa þessar fjölmörgu myndir okkur að skynja Guð. Þó þær gefi ekki alltaf skýra mynd einar og sér.
Eitt spádómsritið í G.t. talar um Guð sem fasteign. Þessi mynd ein og sér, kallar líklega fram mynd af húsi eða Volvo bifreið, en þó held ég að við séum sammála um að Guð sé hvorki hús né bíll. Hins vegar getum við líka séð úr líkingunni Guð sem raunverulegan mikinn og máttugan, eitthvað sem vert er að eiga að. En til þess þurfum við að vita að Guð er ekki bara fasteign.
Opinberunarbók Nýja Testamentisins segir Guð vera alpha og omega. Tvo stafi í gríska stafrófinu. En á sama hátt held ég að fæst okkar horfi á Guð sem bókstafi, jafnvel þó alpha og omega séu sérkennilegir stafir og ekki notaðir dags daglega. Líkingin segir okkur öllu fremur, að líkt og alpha og omega eru fyrstu og síðustu stafirnir í gríska stafrófinu, þá er Guð upphaf og endir alls lífs.
Stundum eru myndir Biblíunnar af Guði á þann veg að við viljum helst hafna þeim með öllu eða sniðganga þær.
Mörg okkar muna eftir bangsa barnsáranna. Mjúkur og kannski svolítið slitinn, augað dottið úr og gömul tala úr skyrtu komið í staðinn. En ekkert var samt jafn mikilvægt og bangsinn, nema kannski mamma.
En þegar mamma var búin að skamma okkur var bangsinn einn eftir. Þá var gott að hlaupa til hans og tala við hann. Hann var alltaf við, hlustaði alltaf og það sem betra var, dæmdi okkur ekki, eða skammaði.
Það er þessi mynd sem af Guði sem risastór ljósblár bangsi með bleikt hjarta á maganum setur upp. Sá Guð sem hlustar, dæmir ekki og er til staðar hvenær sem einhver er vondur við okkur. Guð sem bíður eftir okkur og tekur við okkur eins og við erum, hvernig sem okkur líður og hvað sem við höfum gert.
Líking stelpunnar, hjálpar okkur við að fá mynd af Guði. En þó er einnig hægt að misskilja hana ef við tökum hana sem fullnægjandi og heilsteypta mynd af Guði.
En myndin er ekki fullkomin svona, við þurfum að skilja að Guð Biblíunnar, er ekki bara risastór ljósblár bangsi með bleikt hjarta á maganum.
Líkingin horfir framhjá þeim væntingum sem Guð hefur til okkar. Væntingum sem eru orðaðar í bæninni Faðir vor, á þennan hátt:
„Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“
Væntingunum um að við sýnum öðrum kærleika, komum vel fram við aðra, hlustum á þá og dæmum ekki. Líking unglingsstúlkunar virkar þá aðeins þegar við munum að Guð kallar okkur til að vera öllum mönnum ljósbláir bangsar með bleiku hjarta á maganum.