Hún er um margt áhugaverð umræðan um stöðu trúarbragða í grunnskólanum, sem hefur skotið upp kollinum í almennum fjölmiðlum í kjölfar málþings Vinstri grænna um helgina. Eitt einkenni þessarar umræðu hefur verið tilhneiging ýmissa til að spyrða saman ólíka þætti og alhæfa út frá einstökum og á tíðum stílfærðum dæmum.
Það er að sjálfsögðu gert til að ná fram meiri áhrifum og reyna þannig að kalla fram stuðning við eitthvað eða gegn einhverju.
Hér hyggst ég freista þess að greina mismunandi þætti umræðunnar, mest fyrir sjálfan mig, til að sjá hvert málið í raun og sann er.
Kristni- og trúarbragðafræðsla í grunnskólum
Það er að mínu viti grundvallaratriði að í grunnskólum á Íslandi fari fram fræðsla um trúarbrögð og sér í lagi kristni. Sú fræðsla hlýtur að fela í sér fræðslu um kennisetningar trúarbragða, trúarlegt atferli og að einhverju leiti umfjöllun og kennslu um helstu trúarlegu texta. Þannig hlýtur að teljast eðlilegt að börn og unglingar læri bænatexta, s.s. Faðir vor og Vertu Guð faðir, enda eru þetta grundvallandi textar í lífi þjóðarinnar. Þá er skiljanlegt að hluti fræðslunnar felist í því að börnin heimsæki kirkjur/bænahús, séu viðstödd helgihald og kynnist þannig þeim veruleika sem trúaðir menn lifa í. Í þessari fræðslu og augljóslega ekki að felast reglubundið helgihald nemendanna, enda er um fræðslu að ræða en ekki trúarlega iðkun.
Mikilvægt er að líta hér til þess sem er svo greinilega orðað í fræðslustefnu kirkjunnar:
Samstarf kirkju og skóla er fjölbreytilegt. Gæta þarf að ólíkum hlutverkum þessara tveggja stofnana. Skólanum er ætlað að fræða um trú og lífsgildi. Hlutverk kirkjunnar er að boða kristna trú og lífsgildi þannig að þeir sem henni tilheyra tileinki sér boðskapinn. Kirkjan getur vissulega stutt skólasamfélagið með fræðslu um trú og lífsviðhorf en þá á áðurnefndum forsendum skólans. Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan.
Í þessu felst að hlutverk skólans er EKKI boðun að mati kirkjunnar, það liggur ljóst fyrir og mikilvægt að skólinn skilji hlutverk sitt ekki síður en kirkjan.
Kirkjuheimsóknir
Til að öðlast skilning á stöðu og hlutverki trúar í lífi fólks er mikilvægt fyrir nemendur að kynnast trúarsamfélagi. Kirkjuheimsóknir geta verið mikilvægur þáttur í því námi. Innan veggja kirkjunnar eru bænir eðlilegur þáttur og ljóst að fræðsluheimsókn í kirkjuna getur vart án bænahalds verið. Þannig geta heimsóknir í kirkju verið þáttur í fræðslu um trúmál og í raun nauðsynlegar ef fræðslan á að vera heildræn. Reglubundnar heimsóknir þar sem gerð er krafa um þátttöku barnanna í öllum þáttum, fellur hins vegar vart undir það að vera kynning á helgihaldi trúarsamfélags og eiga því vart við.
Samstarf við Frístundaheimilin
Ég hef áður rætt um samstarf barnastarfs kirkjunnar og KFUM&KFUK við frístundaheimili ÍTR. Það er yfirlýst stefna ÍTR að reyna eftir mætti að koma öllu frístundastarfi barna inn á tímann eftir skóla og fyrir kl. 17:00. Þannig eru frístundaheimilin miðstöðvar þar sem börnin koma saman, fara þaðan í dans, fótbolta, karate, píanótíma eða kirkjuna og taka þátt í því starfi sem þau hafa áhuga á og foreldrarnir treysta sér til að greiða fyrir. Þannig eru á stundum fá börn í viðveru í frístundaheimilunum og á öðrum tíma mörg. Þessi uppbygging er mjög spennandi, um margt ómótuð en á eftir að þróast frekar.
Það er mikilvægt að viðurkenna að börn hafi rétt til að nýta þennan tíma til þátttöku í því starfi sem þau og foreldrar þeirra vilja að þau sinni. Að gera þá kröfu að starf kirkjunnar sé á öðrum tíma og þannig á einhvern hátt annars flokks, er vanvirðing við það starf sem þar er unnið. Á sama hátt er undarleg sú fullyrðing að fyrst að svo margir vilji vera með, þá eigi að stöðva starfið en furðulegri.
Til að draga úr þeim vanda sem fylgir því að kirkjustarfið er jafn vinsælt og raun ber vitni, hljóta foreldrar sem kjósa að halda börnum sínum utan við starfið, að kalla eftir því að frístundaheimilið bjóði upp á annað starf á meðan kirkjan kemur með sitt tilboð. Kirkjan getur ekki borið ábyrgð þar, þó hún vildi, enda ekki heimilt að hlutast til um þau börn sem standa utan við starf hennar.
Helgihald í grunnskólum
Almennir grunnskólar eiga ekki að vera trúarlegar stofnanir. Helgihald innan almennra grunnskóla verður þannig aldrei annað en tilraun “trúaðra” einstaklinga til að gera skólann annað en honum er ætlað. Aðeins ef til staðar er upplýst samþykki allra sem að málinu koma, foreldra, kennara og sveitarstjórna, er skólum heimilt að taka sér þetta hlutverk. Að öðrum kosti er um að ræða atferli sem ekki á við í þessu umhverfi. Að halda því fram að signing og bæn sé eitthvað annað en kristið athæfi og sé hentugt til að skapa ró og mynda skólabrag er auk þess vanvirðing við þessi mikilvægu þætti í trú kristinna manna.
Tengt ofansögðu er það mér mikilvægt að til staðar séu stofnanir þar sem upplýst samþykki allra er til staðar um að helgihald fari fram með börnum. Því er mikilvægt að til staðar séu trúarlegir einkaskólar eins og Landakotsskóla eða Suðurhlíðarskóla. Þannig að þeir foreldrar sem það kjósa geti fengið þá þjónustu að beðið sé í upphafi skóladags. Fordómar í garð múslíma og minnimáttarkennd skólayfirvalda í Reykjavík, má ekki verða til þess að vilji foreldra og valfrelsi sé fyrir borð borið.
Heimsóknir kirkjustarfsfólks í grunnskólans
Kirkjustarfsfólk kemur á tíðum inn í starf grunnskólans. Slíkt þarf í öllum tilfellum á skýrum forsendum skólans. Kirkjan á að reyna eftir mætti að halda fermingarfræðslunni utan skólans og sú leið að fermingarstarfið sé hluti af stundatöflu skólans og innan veggja hans er með öllu óásættanlegt. Það dregur úr gildi þeirrar sérstöðu sem fermingarstarfið á að hafa og viðheldur ástandi sem í raun var lagt af um 1907. Hvað aðrar heimsóknir varðar, er ljóst að þær geta verið á margvíslegum forsendum.
Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan.
Þannig er mikilvægt að starfsfólk kirkjunnar hafi aðgang að starfsfólki skólans og eigi við það sem best samstarf, enda oft um sömu einstaklinga að ræða sem sinnt er. Eins getur verið að sérþekking starfsfólks kirkjunnar geti nýst í starfi skólans og kirkjunni ætti að vera ljúft og skylt að sinna skólanum. Hér er hins vegar mikilvægt að slíkar heimsóknir séu ALLTAF á forsendum skólans.
Að lokum
Þetta eru fyrstu þankar mínir. Ég hef velt þessu fyrir mér frá ýmsum hliðum. Mér hefur mislíkað misnotkun á orðum eins og umburðarlyndi og einelti, en um leið hefur mér fundist vanvirðing annarra lítt skárri. Ég á ef til vill eftir að skipta um skoðun í einhverjum þáttum þessa máls. En það er enda mikilvægt að geta lært og mótað skoðanir sínar þegar hlustað er á skynsamleg sjónarmið.
Eldri ummæli við þessa færslu skemmdust því miður vegna mistaka í ritskoðun. Rétt er að endurtaka að ég áskil mér rétt til að eyða öllum ummælum við þessa færslu sem mér finnst óviðeigandi.
Þetta er vel skrifaður texti. Þú bendir á að almennir opinberir grunnskólar eigi ekki að vera trúarlegar stofnanir með reglubundið helgihald. Mið hliðsjón af þeim orðum þá undrar það mig stórum að einhver hafi verið með skítkast hér á síðunni fyrr í dag. Ja, hérna.
Menn voru að gera athugasemd við skrif Halldórs E. um kirkjuheimsóknir. Hann heldur jú fram að sameiginlegt bændahald sé eðlilegt vegna þess hve bænir eru eðlilegur þáttur í starfi kirkjunnar og því eðlilegur þáttur í fræðslu um kirkjur. Ég er sammála “trúleysingjunum” í að gera hér athugasemd. Bænin er ekki fræðsluatriði frekar en annað trúarlegt athæfi og á því ekki að tíðkast er kirkjan tekur á móti skólabörnum. Skilja ber ríkt á milli trúariðkunar og fræðslu. Annars er hætta á að skólayfirvöld haldi að kirkjan sé reyna að misnota þessar heimsónir og draga þá úr þeim eða hætta alveg. Þá má vel minna á orð Krists um að vera ekki að bera bænir sínar á torg, heldur ganga afsíðis og biðja þar guði til dýrðar en ekki til að sýnast fyrir mönnum.
Ég hef skilning á athugasemd þinni Torfi, en eftir að hafa tekið þátt í helgihaldi múslíma sem áhorfandi öðlaðist ég annan skilning en áður á veruleika þeirra. Af þeim sökum hef ég þessa skoðun. Hins vegar glími ég um leið við orð Krists og á mínum vinnustað höfum við rætt þessi mál nokkuð í dag.
Nú skil ég ekki Halldór. Hvað kemur sjálfvalin upplifun þín, fullorðins manns, af trúariðkun við þvingun leik- eða grunnskólabarns til að taka þátt í sambærilegri tilbeiðslu? Heldurðu að þau hafi með því öðlast dýpri skilning á kristinni trú? Gott að glíma við drottinn – og hafa sigur!
Blessaður Torfi, með því að leyfa börnum/unglingum að verða vitni að tilbeiðslu fá þau skilning á því að trú er annað og meira en bókstafur eða kennisetningar. Þessi skilningur er mjög mikilvægur til að læra eitthvað um trúarbrögð.
Jú, það er auðvitað allt í lagi að verða vitni að tilbeiðsluathöfn en annað að vera “neydd” til að taka þátt í henni. Magnús Erlingsson var með gott innlegg í þetta mál á öðrum vettvangi, en það byggðist á gullnu reglunni: “Allt sem þú vilt að aðrir gerir þér, skaltu einnig gera þeim.” Hann vildi ekki að börn sín neyddust til að taka þátt í tilbeiðsluathöfn framandi túarbragða, þó svo að þau byggju í þannig samfélagi til langframa. Við það má bæta að börn eru jafnvel enn meiri hópsálir en fullorðnir og vilja forðast það í lengstu lög að skera sig úr. Þvingunin er þannig hópþvingun, þú verður að vera og gera eins og allir aðrir, annars er hætta á einelti.
Það fer ekki fram hjá neinum sem kíkja í sögukennslubækur barna sinna að þar er sagan túlkuð á mjög eindreginn hátt. Túlkunina má hæglega flokka undir þjóðernishyggju eða jafnvel þjóðrembu. Gefum okkur að þjóðernishyggja sé í mínum huga upphafið af öllu illu. Á ég þá kröfu á að sögukennsla verði lögð niður eða breytt í grunn- og framhaldsskólum landsins? Neyðist ég til að lúta vilja meirihlutans?
Ertu að höfða til einhvers sem ég skrifaði, Ólafur, eða einhvers annars? Ef ég svara þessu þá tel ég mikilvægt að þú mótmælir þjóðernissinnaðri sögutúlkun þegar þú sérð hana. Ef ekki, þá a.m.k. benda barni þínu á hana, og að trúa ekki öllu sem því er sagt eða sem það les. Það eflir jú gagnrýna hugsun að impra á þessu, sem því miður er ekki mikið til af. Ég er nú einmitt að skrifa um Jörundartímann sumarið 1809 og þá furðulegu túlkun sem sagnfræðingar (og fleiri) hafa gert sig seka um varðandi þá atburði. Jörundur er yfirleitt mærður sem frelsishetja en dönsk stjórnvöld eru vonda fólkið í sögunni. Slík söguskoðun er sem betur fer á undanhaldi meðal fræðimanna og því þá ekki einnig í grunnskólum landsins? Niður með þjóðrembuna!!
Þetta var örlítil tilraun til þess að sýna hvað það er erfitt að taka á þessu með trúarbrögð og skóla. Hvernær erum við að tala um fræðslu og hvernær trúboð? Taka ekki allir afstöðu? Það er alveg rétt að þjóðrembu-söguskoðun er á undanhaldi. Hvað er að taka við? Er kannski loksins farið að segja “satt og rétt” frá eða er einungis nýtt narrative tekið við með nýjum mönnum? Börn horfa á allskonar viðbjóð alla daga á myndböndum og í sjónvarpinu. Það kippir sér enginn upp við það. Barn biður bæn suður í Keflavík og allt verður vitlaust. Þetta er undarlegur heimur.
Mér finnst nú kirkjunnar fólk gera alltof lítið úr mun á fræðslu og trúariðkun, sem er ekki sannfærandi. Trúariðkun hefur sérstaka merkingu og fræðsla aðra, ekki bara fyrir mér heldur einnig í okkar ástkæra ylhýra. Til að geta talað saman verður fólk að leggja svipaða merkingu í sömu orð. Trúariðkun er að gera krossmark fyrir sér, ekki síst í hópi, að biðja bænar og syngja trúarlega söngva. Fræðsla um kristna trú er þá að kenna börnum signinguna (sem ég sé reyndar enga nauðsyn á, hún var jú bönnuð hér á landi sem annars staðar í lútersku löndum um aldir!), kynna þeim bænir og trúarlega söngva en ekki endilega að láta þau læra slíkt utan að (amk. alls ekki að láta þau fara með slíkt saman). Allir taka afstöðu á einn eða annan hátt en hlutleysi er þó ennþá eitt inntak skólastarfs. Þú mátt hreinlega ekki vera með áróður fyrir vissum stjórnmálaflokki osfrv. Sama er um skólann í Keflavík. Signingin og bænahald það sem sýnt var í sjónvarpinu er hreinlega ólöglegt samkvæmt námskrá.
Á ég börn. Ég velti því stundum fyrir mér, þegar þessi mál eru rædd, hvað skógurinn þvælist mikið fyrir trjánum. Þegar barnahópur lærir eitthvað um kristni eru þau allt í einu orðin viljalaus zombí sem innbyrða allt sem að þeim er rétt. Það verður forgangsatriði hjá fólki með pólítískan rétttrúnað að hindra þessi hryðjuverk sem eru framin á óspjölluðum sálum. Þau verða jú að fá “hlutlausa” mynd af heiminum. Á meðan á sellufundunum stendur um þetta mesta óréttlæti heimsins, eru börnin beðin um að vera nú ekki að þvælast fyrir. Geta þau ekki bara farið inn til sín og horft á nýjasta myndbandið um fjöldamorðingjan sem snýr aftur?
Skólakerfið er langt frá því að vera fullkomið. Ég get talið upp ótal sögur um misbresti og stundum mannvonsku í skólum landsins. Dæmið í Keflavík er mjög neðarlega á lista yfir það versta sem börn hafa mátt þola. Mín reynsla er sú að það skiptir ekki öllu máli hvað kennarinn kennir. Það skiptir öllu máli hvernig kennarinn er innrættur. Hann er með barninu mínu jafn lengi á hverjum degi og ég. Virðing, væntumþykja og bjartsýni er það sem ég fer fram á í fari kennara. Ekki einhver gervihugtök einsog hlutleysi.
Ekki veit ég nú alveg hvort hugur fylgir máli hjá þér Ólafur! Áður kvartaði þú yfir þjóðrembu í sögukennslu en nú segistu einungis fara fram á “virðingu, væntumhygju og bjartsýni” hjá kennaranum! Hann má sem sé vera áróðursmaður fyrir islam og fara með bænir og vers úr Kóranunum í tíma og ótíma fyrir þér? Frjálshyggjan lengi lifi!
Ég kvartaði ekki yfir þjóðrembu. Ég notaði hana sem dæmi um hvað umræðan um trúarbragðakennslu er mikið á yfirborðinu og frasakennd. Það má skoða dæmið frá öðru sjónarhorni og halda sig við sögukennsluna. Hvað mundir fólk segja ef Japani mundi kenna mannkynssögu í íslenskum skóla eins og hann lærði hana í Japan og varla minnast á Evrópu? Ef hann væri biðinn um að gæta hlutleysis, mundi hann sennilega brosa út í annað, ekki satt? Ég stend við það að ég vil sjá kristnifræðikennslu í skólum barna minna. Ég skil það líka ágætlega ef einhverjir sætta sig ekki við að börn þeirra læri um trúarbrögð öðruvísi en sem forvitnileg hindurvitni. Þeir um það. Lausnin er sitthvor skólinn. En aðalatriðið er, og verður, að sýna barninu virðingu og væntumþykju. Það felur það í sér að bera virðingu fyrir trú þeirra og grundvallarlífsgildum. Þar með fellur dæmi þitt um brjálaða áróðursmanninn um sjálft sig.
Þetta einsamtal okkar fer nú að verða hálf kómískt og kominn tími til að hleypa öðrum að. Aðeins að lokum. Það eru til fleiri leiðir en að kenna kristinfræði með tilbeiðslulaginu eða sem hindurvitni, þ.e. að fara bil beggja og segja hlutlaust frá. Hlutleysi er til sem betur fer ennþá þrátt fyrir allar “póst”moderískar kenningar um að svo sé ekki. Svo er með sagnfræðina. Sú sem stenst best tímans tönn er jafnframt besta fræðin. Sama gildir um kennsluna. Sú kennsla sem er hlutlausust er besta kennslan, sýnir börnunum og aðstandendum þeirra mesta virðingu og væntumþykju, en skítt með bjartsýnina!
Þetta þarf ekkert að vera flókið. Einfaldasta leiðin til að sjá í hendi sér hvort aðkoma trúfélaga að skólum er viðeigandi eða ekki er sú að skipta trúfélaginu út fyrir stjórnmálaflokk. Ef það er heppilegt/siðlegt/réttlætanlegt að kenna börnum um “stöðu og hlutverk stjórnmála í lífi fólks” með því að fara með börnin í félagsstarf hjá VG eða hleypa Ögmundi og Steingrími J. inn í skólana til að fræða börnin um náttúruvernd, náungakærleika og þá góðu siði sem póltískt meðvitað fólk ætti að tileinka sér, þá er líka í lagi að fara með þau í í kirkjuheimsóknir og bjóða upp á bænahald í skólum.
Það vakna minningar af umræðunni um áróður í skóla, n.t.t. menntaskóla sem Hannes Hólmsteinn og Bragi Guðbrandsson og fleiri háðu fyrir um þrjátíu árum síðan. Þá voru margir kennara minna eldheitir og rauðir í M.H. og lágu sumir undir ágjöf vegna þess að þeir kenndu um Marx og jafnaðarstefnu í félagsfræði, stjórnmálafræði og hagfræðitímum. Ég held að það sé prýðileg hugmynd að hafa heimsóknir til stjórnmálahreyfinga sem hluta af skólastarfi. Kannski krakkarnir lærðu þá að hægt er að bera virðingu fyrir stjórnmálamönnum og konum, þótt foreldrarnir séu á öndverðum meiði við þá í pólítík …
Nei, þetta er ekkert flókið Eva! En það er til fólk sem sífellt reynir að gera einfalda hluti flókna, fyrst og fremst til að fara í kringum reglurnar. Það að kenna um Marx þarf alls ekki að benda til marxisma Carlos! Marxísk aðferðafræði er löngu viðurkennd fræðigrein – og þeir sem kenna hana ekki þar sem það á við eru einfaldlega að misnota aðstöðu sína í hagsmunagæslu fyrir hægri öflin, rétt eins og Hannes Hólmsteinn og félagar hans hafa alltaf gert. Það er eins heimskulegt að kenna ekki Marx í húmanískum greinum og hagfræði eins og að kenna ekki Hegel í heimspeki eða Adam Smith í hagfræði.
Nú, þá er ámóta heimskulegt að kenna ekki um trúararf í samfélagsgreinum. Hvað þá heldur svo nemendur geti ráðið við klassískar bókmenntir. Nú eða mannkynssögu! Annars hélt ég að þessi þráður væri dauður en upprisan er víst enn í góðu gildi. Síðbúið innlegg mitt er kannski af þeim meiði. Góðar stundir!
Þeir lifa lengst sem lýðnum eru leiðastir! Auðvitað á að kenna trúararfinn í samfélagsgreinum, svo sem bókmenntum og sögu. M.a.s. “trúleysingjarnir” eru sammála því að vissu marki. Það er hins vegar trúboðið sem stendur í fólki og tilraunir manna á þessum síðustu og verstu tímum að boða trú í skólum landsins undir yfirskini fræðslu. Hætt var að stunda “trúboð” í íslenskum skólum á 3. áratug 20. aldar með fræðslulögum sem Ásgeir Ásgeirsson guðfræðingur, síðar forseti Íslands, stóð fyrir. Nú vilja menn fara 80 ár aftur í tímann og snúa þannig við klukkunni. Er það í takti við aðra þróun í vestrænum samfélögum þar sem mannréttindi fólks hafa ekki staðið eins tæpt í áratugi, ef ekki í aldir, (hin nýju terroristalög). Íhaldsöm sjónarmið hafa eflst mjög á undanförnum árum, ekki aðeins í USA, og er þessi krafa um kristniboð í skólum aðeins einn angi þeirrar þróunar.