Þessi texti er endurskrifaður af eldri síðu. Hann var m.a. ræddur af Torfa og Skúla í upprunalegri mynd hér.
Ég hef heyrt og lesið fjölmarga sem eru af hjarta á móti fjölmiðlafrumvarpinu. Enda ekki erfitt að sjá eða heyra einn af 200 þúsund Íslendingum sem hafa þá skoðun. Ég hef verið ítrekað spurður hvers vegna ég sé því meðmæltur. Ég hyggst nálgast spurninguna með neikvæðum formerkjum. Af hverju ætti mér að mislíka frumvarpið. Mér sýnist að skipta megi gagnrýninni upp í fjóra þætti:
- Davíð Oddsson er dóni. Hann valtar yfir allt og alla. Davíð er persónulega á móti Baugsfeðgum og hann vill að þetta frumvarp verði að lögum. Þess vegna er ég á móti því.
- Frumvarpið er illa skrifað og á því ekki að verða að lögum, enda skrifaði Davíð frumvarpið og er bæði frekur og dóni.
- Ég hef hagnast á viðskiptum mínum við Baug. Ég versla í 10-11, Dótabúðinni, Útilíf, Bónus, Blómaval, Hagkaup, fer reglulega í Kringluna og á e-kort. Það er betra að Baugur sem selur ódýrar vörur eigi mig en Davíð.
- Allar aðgerðir ríkisins sem hefta frelsi einstaklinga eru í sjálfu sér slæmar. Davíð var einu sinni sammála þessu en er að svíkja okkur.
Ég tek undir fyrri hluta liðs 1. en sé hins vegar ekki að það þurfi endilega að leiða til seinni hlutans.
Ég get tekið að einhverju leiti undir fyrri hluta fullyrðingar 2. sem ég tel bestu rökin gegn frumvarpinu. Hins vegar tel ég það koma fjölmiðlum mjög illa ef við látum hugsanlega lagasetningu hanga yfir í langan tíma. Af þeim sökum tel ég illa skrifað frumvarp betra en ekkert.
Ég hef enga samúð með Baugi og trúi því að stjórnendur þjóðfélagsins eigi að vera kosnir lýðræðislegri kosningu, en eigi ekki að geta komist til valda með auði eingöngu. Það að leyfa einstaklingum að komast upp með yfirtöku þjóðfélagsins í krafti auðs er algjörlega andstætt hugmyndum mínum um lýðræði. Hótanir Baugsmanna um að flytja starfsemi sína úr landi vegna lagasetningar á Alþingi, yfirlýsingar Jóns Ásgeirs um hvernig fjölmiðlalög HANN SÆTTI sig við, hótanir um uppsagnir starfsfólks ef Alþingi ekki fylgdi vilja fyrirtækisins. Allt eru þetta gjörsamlega óþolandi aðgerðir í lýðræðislegu samfélagi. Peningar sem kjörseðlar eru óhugnanlegustu afleiðingar hreins kapítalisma. Því með því móti er lýðræðið eign hins ríka. Af þeim sökum hafna ég fullyrðingu 3.
Frelsi eins getur minnkað frelsi annars. Þess vegna þarf ríkið stundum að setja lög. Þetta er eitt þeirra tilvika. Af þeim sökum er ég ósammála frjálshyggjupostulunum (t.d. skrifum vefÞjóðviljans 19. maí).
Að þessu sögðu er rétt að taka málið saman. Skýrsla er komin fram sem segir að nauðsynlegt sé að setja lög um fjölmiðla, m.ö.o. raska jafnvægi í viðskiptaumhverfi. Fyrst ákvörðunin er komin er nauðsynlegt að bregðast við sem allra allra fyrst. Ákvörðunin er nauðsynlegt því að ofurítök fárra manna draga úr frelsi einstaklinganna sem hér búa.
Þetta verður að kalla gífurlega einföldun. Hvað með mögulegt stjórnarskrárbrot? Hvað með þann hátt sem hafður er á að þrýsta þessu máli í gegn? Stjórnarskrárbrot væri góð ástæða til að vera á móti þessu frumvarpi. En hvernig komust við að því hvort um brot er að ræða ef ríkistjórn landsins neitar að biðja um álit og vill sem minnstar umræður um málið yfirleitt.
Blessaður Grétar, ég tek undir með þér. Ef um er að ræða stjórnarskrárbrot þá er um alvarlegt mál að ræða. En í hverju á það stjórnarskrárbrot að felast? Ég þurfti að leita lengi til að sjá þessa gagnrýni á http://www.fjolmidlafrumvarp.is. Hvað varðar aðferðafræðina við framkvæmd málsins þá vísa ég í hana í lið 1. Einföldun já, en ég tel að málið sé einfaldlega ekki flóknara. Þrátt fyrir vilja Davíðs tel ég að fá mál hafi verið meira rædd en þetta mál. Sjaldan hafa jafn margir lögspekingar tekið til máls um nokkurt frumvarp og það er ekki algengt að fyrirtæki setji upp heimasíður til að berjast gegn ríkisstjórnarfrumvarpi.
Frekari umfjöllun um hvort fjölmiðlafrumvarpið sé stjórnarskrárbrot. Má sjá á http://www.annall.is/elli/2004-05-19/21.36.07