Messurýni

Fyrir 7-8 árum tók ungur penni sig til og heimsótti nokkur trúfélög og söfnuði og skrifaði gagnrýni í eitthvert af þeim blöðum sem lifðu þá. Ein af kirkjunum sem voru heimsóttar var einmitt Grensáskirkja og mér er minnistæð umræðan um hversu sárir nokkrir einstaklingar urðu vegna orðalags og ályktana. Það þrátt fyrir að umsögnin hafi í raun verið fremur jákvæð og ábendingarnar réttmætar, sýndu jafnvel óvenjulegt innsæi um heilsufar þeirra sem leiddu helgihaldið. Þessi gagnrýni sem ég finn ekki á vefnum lengur, var á sínum tíma einnig birt á strik.is ef ég man rétt, kallast skemmtilega á við Reggie McNeal, þar sem hann mælir með því að söfnuðir ráði utanaðkomandi fólk, sem er ekki og hefur ekki tengsl við kirkjuna, til að taka þátt í safnaðarstarfinu í tvær til þrjár vikur og greina síðan frá reynslu sinni.

Ég sá að Vésteinn Valgarðsson hefur skrifað um bókina I Sold my Soul on eBay, en þar skrifar slíkur messurýnir um reynslu sína. Ég mæli ekki endilega með Vantrúarmönnum í verkefnið, enda æskilegt að viðkomandi mæti til leiks með sem minnstar fyrirframgefnar skoðanir á verkefninu, en þeir eru vafalaust jafnhæfir til að greina hvað fer fram og mörg okkar sem erum kirkjueigendur.