Framtíðin

Meðal dagskrárliða á Global Mission Event, var svokallaður Global University, en hann byggði á 80 fræðsluerindum sem hvert var 1 klst, og var flutt tvisvar. Mest var hægt að sitja 6 erindi og reyndi ég eftir mætti að velja fyrirlestra/kynningar/erindi sem tengdust safnaðaruppbyggingu í víðri merkingu þess orðs, en lét vera að hlusta á erindi um starf ELCA á erlendri grundu. Ég reyndar sleppti alfarið kynningunni á Healthy Congregations verkefninu enda orðin sumarstarfsmaður þar, en hins vegar hlustaði ég á umfjöllun um Natural Church Development (NCD), Rekindling, Transformation Ministry og Global Mission Education.

Þarna var í sjálfu sér fátt nýtt að heyra.  Ég kynnti mér NCD nú í vor, Rekindling byggir á kenningum um markmiðasetningu (Purpose, Vision, Strategic Planning) sem ég fór í gegnum í Stjórnun í Viðskipta- og hagfræðideild HÍ fyrir næstum fimm árum og Transformation Ministry, snýst einfaldlega um að viðurkenna að breytingar eru sársaukafullar og fólk þarf að vera tilbúið til að takast á við sársaukann. En hvað um það, mér varð hugsað til þess þegar ég hlustaði á Rekindling-kynninguna að það gæti verið spennandi að nota hugmyndir fyrirlesarans til að vinna að sýn fyrir íslensku þjóðkirkjuna og/eða einstaka söfnuði.

Þannig væri hægt að fá hóp fólks til að skrifa upp lýsingu á því hvernig það sjái fyrir sér og/eða voni að staða íslensku þjóðkirkjunnar verði eftir 15 ár. Hvernig verður safnaðarstarf í hefðbundnum söfnuði í Reykjavík, hvert verður samband ríkis og kirkju, hvernig verða ráðningarmál presta, hvernig standa aukaverkagreiðslur. Þessi lýsing þyrfti að vera í nútíð, lýsing á því hvernig kirkjan ER 2022.

Slík lýsing þyrfti að sjálfsögðu að byggja á tilganginum (purpose) – Biðjandi, boðandi, þjónandi. Þegar svo sýnin hefur tekið á sig mynd, væri hægt að setja fram tölusett markmið hvernig hægt væri að láta sýnina rætast. Með svona vinnu væri e.t.v. hægt að opna umræðu um samband ríkis og kirkju og hefja aðgerðaáætlun á því sviði.  Vissulega var stefnumótunarvinnan einmitt þetta, SWOT er eitt af þessum tækjum sem notuð eru til að horfa til framtíðar með vitneskju um fortíðina. Rekindling hugsunin er hins vegar tilraun til að horfa til framtíðar, án tillits til fortíðar – það hafa verið byggð hús og tekin lán,  því verður ekki breytt, en slíkt á ekki að hafa áhrif á framtíðarsýnina.

Ef til vill ætti ég að bjóðast til að leiða svona vinnu á Íslandi í janúar 2008, og sleppa því að taka J-Term kúrs. Hvern getur maður látið borga?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.