Það er áhugavert að skoða hvernig innflytjendur frá dreifðari byggðum Tyrklands og nágrannaríkja hafa þurft að glíma við siðrof Durkheim. En flutningurinn frá einsleitum smáum byggðum til stórborga Evrópu hefur þróað og breytt helgihaldinu frá því að vera vettvangur samfélagsins í þorpinu, þar sem ríkjandi félagslegt ástand var styrkt og lofað, til þess að vera hvíld fyrir einstaklinga, í andsnúnu umhverfi þar sem helgihaldinu er ekki ætlað að styrkja ríkjandi ástand, heldur birta mynd af von um það sem framundan er.
Þannig má segja að rofið felist í því að smáu samfélögin hafa horfið og ópersónuleg stórsamfélög hafa komið í þeirra stað. Þessi þróun breytir síðan helgihaldinu frá því að vera samfélagslegt til þess að kalla eftir persónulegri afstöðu einstaklingsins. Ef við lítum til kristninnar á Íslandi, má sjá speglun í rannsóknum á múslímskum innflytjendum í Evrópu og mismunandi viðhorfi landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins til aðskilnaðar ríkis og kirkju.