Hverjir sækja kirkju?

Á mbl.is í dag er sagt frá niðurstöðu Vísindarannsóknar Háskólans í Pittsburgh.

Að sækja kirkju einu sinni í viku kann að bæta nokkrum árum við ævina, samkvæmt læknisfræðilegri rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum. Könnuð voru áhrif líkamsræktar, kirkjusóknar og blóðfitulækkandi lyfja á ævilengd og reyndist þetta þrennt alltsaman hafa jákvæð áhrif.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í mars/apríl-hefti vísindaritsins Journal of the American Board of Familiy Medicine.
Það voru vísindamenn við Rannsóknamiðstöð í læknisfræði við Háskólann í Pittsburgh sem gerðu rannsóknina. Meðal þess sem í ljós kom, var að vikulegar messusóknir gátu lengt ævina um tvö til þrjú ár. Regluleg líkamsrækt getur samkvæmt rannsókninni lengt lífið um þrjú til fimm ár og blóðfitulyf á borð við Lipitor tvö og hálft til þrjú og hálft ár.

Svona rannsóknir eru alltaf áhugaverðar, reyndar er ég ekki tölfræðifulltrúi fjölskyldunnar, en samt tel ég mig vita að fylgni merkir ekki endilega að annað sé orsök, hitt afleiðing. Svona rannsókn í mínum huga, kallar frekar á vangaveltur um það hvers konar fólk er það sem sækir kirkju í BNA. Þættir sem hafa áhrif á ævilengd eru t.d. offita, fátækt, kynhegðun, menntun og þjóðfélagsstaða. Er það e.t.v. svo að kirkjan í nútímanum höfðar ekki í jafnmiklu mæli til þeirra sem Jesús beindi orðum sínum til og til þeirra sem búa við alsnægtir.

Spurning Jim Wallis, “When did Jesus came Pro-rich?” Eru eðlilegri viðbrögð við niðurstöðum þessarar rannsóknar heldur en vangaveltur um hvort kirkjusókn bæti nokkrum árum við ævina.