Frábær áminning

Í Morgunblaðinu í dag skrifar Unnur Halldórsdóttir:

NÝLEGA var ég viðstödd mjög fjölmenna jarðarför í Reykjavík. Aðstandendur buðu til erfidrykkju sem var svo óvenjuleg að ég má til með að koma hugmyndinni á framfæri.
Í safnaðarheimili kirkjunnar biðu okkar uppdúkuð borð með kaffikönnum, konfektskál og vænum diski af kleinum og upprúlluðum pönnukökum. Afar gott og handhægt, engar biðraðir og gamla fólkið slapp við að bera meðlætið skjálfandi hendi að sæti sínu. Við systkinin sem sjaldan hittumst áttum þarna gæðastund saman og gátum einnig heilsað upp á ættingja sem sátu afslappaðir viðnæstu borð. Kleinurnar komu glænýjar frá Ömmubakstri og pönnsurnar voru bakaðar af vinum og vandmönnum svo allt var þetta mjög viðráðanlegt og áhyggjulaust. Ef fleiri taka upp þennan ágæta sið auðveldar það fólki að bjóða í kaffi eftir útförina en hugsanlega eru margir sem velja útför í kyrrþey vegna kostnaðar við erfidrykkjur. Þær hafa að mínu mati mikilvægu hlutverki að gegna að styrkja vináttu og ættarbönd í annríki dagsins og mega ekki leggjast af.

One thought on “Frábær áminning”

Comments are closed.