Trúarþroskinn

Ég átti áhugavert samtal 1. desember um trúarþroska. E.t.v. er reyndar réttara að segja að samtalið hafi snúist um það hvernig þau sem alast upp í tiltölulega þröngu trúarsamfélagi, takast á við veruleikann þegar þau mæta honum.
Ástæða samtalsins var það þegar ég benti viðmælanda mínum á að ég væri upprunalega þröngsýnn píetisti sem hefði tekið þátt í starfi KFUM og KFUK annars vegar og KSS hins vegar frá barnæsku. Viðmælandanum fannst það ekki rýma við meintar skoðanir mínar í dag og hvernig ég hefði þroskast í þessa átt, án þess að gera um leið uppreisn gegn trúarlegri fortíð minni.
Síðan ég átti þetta samtal, hef ég nokkrum sinnum velt þessu fyrir mér hvers vegna ekki varð rof hjá mér. Þannig velti ég þessu fyrir mér í tengslum við orð Guðrúnar L. um trúleysi sitt í ummælum hér á síðunni. Þetta kom upp í huga mér í skemmtilegum umræðum í afmæli móður minnar um Fjellhaug bakgrunn Magnúsar bróður míns og ekki síður þegar að ungur KSS-ingur kom að máli við mig eftir fund sem ég sá um 4. desember og vildi endilega ræða um hvers vegna guðfræðinemar gengu af hinni réttu Biblíulegu trú í guðfræðideildinni.
Þetta er sér í lagi áhugavert þar sem ég hef ítrekað þurft að berjast fyrir tilveru minni innan píetíska umhverfisins. Þannig hef ég fundað með leiðtogum um störf mín, misst vinnuna vegna frjálslynds atferlis míns og jafnvel unnið við að brjóta um blað sem fjallaði um á neikvæðan hátt um mig og “rangar” hugmyndir mínar.
Í glímunni við þessa sjálfsmyndarkreppu hef ég m.a. skoðað stigin hans J.W. Fowler.

11 thoughts on “Trúarþroskinn”

  1. Vonandi sagðirðu honum að sú ofsatrú(“rétt Biblíuleg trú”) sem að einkennir KSS sé óskynsamleg, röng og hættuleg.

  2. Sem einn af ræðumönnum KSS-inga er ég ekki viss um að ofsatrú(“rétt Biblíuleg trú”), einkenni meginþorra KSS-inga eða þá boðun sem fer fram þar á fundum. Hins vegar get ég tekið undir með þér að trúarskoðanir einhverra KSS-inga er óskynsamleg, röng og hættuleg. Það að benda þessum sömu KSS-ingum á þá staðreynd er gagnslaus iðja og því sagði ég ekki neitt í þá átt við þennan dreng. Hins vegar eyddi ég nokkrum tíma í að fá hann til að útskýra hvað hann átti við.

  3. Kannski var það rangt hjá mér að þetta einkenni meginþorra KSS-inga. Ég hef þá bara rætt við rangt KSS-fólk. Málið er bara að “túlkun” Þjóðkirkjunnar og þar með skólanum hennar, guðfræðideildinni á Biblíunni er ósamrýmanleg bókstafstrú. Þessi mismunandi “lesháttur” kemur síðan fram í þverkirkjulegu starfi á Íslandi ss KSS og þegar að Hvító-fólk fer að læra við PÍ. Þetta er amk mín tilgáta. Hvað finnst þér?

  4. Nú er ég sammála Ella um að ,,ofsatrú” sé EKKI það sem einkennir KSS. Þessi viðkomandi drengur hefur einnig oft rætt þessi mál við mig, og jafnvel þó að ég sé örruglega frekar íhaldssamur þá komast skoðanir mínar ekki í hálfkvisti við þennan ákveðna unga mann. Í KSS er að sjálfsögðu boðað eftir Biblíuni enda er hún trúarrit kristina manna en boðun KSS er alls ekki pietísk á nokkurn hátt!

  5. Fyrirgefðu Þráinn en hefurðu nokkra hugmynd um hvernig píetísk boðun er? Ég veit til þess að KSS hér áður fyrr taldi allan dans og skemmtanir, hvað þá drykkju, vera af hinu illa, en það er dæmigerður píetismi. Er svo ekki lengur?

  6. Blessaður Torfi og Þráinn, ég held að Þráinn eigi hér við fundamentalísk, fremur en píetísk því boðun í KSS er svo sannarlega píetísk í þeirri merkingu að hún leggur ofuráherslu á líf, hegðun og trúarviðhorf einstaklingsins en gleymir á tíðum hinni félagslegu vídd kristindómsins, nema sem einhvers konar verkaréttlætingu. Píetisminn í KSS er þó ekki endilega sá sem Torfi nefnir enda er ekki samasem merki milli fordæmingar á skemmtunum og píetisma.

  7. Sæll Torfi Ég veit líka til þess að KSS hafi áður fyrr talið allan dans og skemmtun af hinu illa en svo er svo sannarlega ekki lengur. KSS hefur á síðustu árum meðal annars staðið fyrir böllum. Hvað varðar drykkjuna þá er KSS áfengislaust félag þar sem ekkert áfengi er haft um hönd á viðburðum félagsins. Hvað einstaka félagsmenn gera á öðrum tímum get ég ekki fullyrt um. Ég persónulega drekk ekki en trúi því samt sem áður ekki að þeir sem drekki fari til helvítis eða eitthvað slíkt eða að áfengi komi beint frá djöflinum. Ég veit það hins vegar að það getur haft slæm áhrif á fólk og ég held að þú sért nú sammála mér þar. Hvað varðar skilgreiningu á pietisma hef ég sjálfsagt lagt sama skilning og Torfi þar sem ég var fyrst og fremst að vísa til fordæminga á dansi og skemmtunum. Hitt er svo annað mál að boðun KSS er ekki fundamentalísk.

  8. Einhverra hluta vegna er því mjög haldið fram hér á landi að píetisminn hafi tíðum gleymt “hinni félagslegu vídd kristindómsins” eins og Halldór E. segir. Það er að mörgu leyti rangt því píetisminn var einmitt þekktur fyrir félagslegt starf á upphafsárum sínum. Stofnun munaðarleysingjahælisins í Köben, Vajsenhúss, er gott dæmi um það og jafnvel stofnun fyrsta barnaskólans hér á landi Hausastaðaskóla sem var fyrir foreldralaus börn, stráka og stelpur. Á móti þessu vegur einstaklingshyggja hans, að hver og einn eigi að bæta sig og sitt umhverfi en ekki ætlast til þess af öðrum. Píetisminn hér á landi er hins vegar þekktastur fyrir baráttu sína gegn áfengisbölinu og þjóðlegum skemmtunum; gegn dönsum og vikivökum, rímum og m.a.s. sagnalestri. Allt átti þetta að vera leyfar úr heiðni eða kaþólsku. Píetisminn var hins vegar ekki bókstafstrúar í orði heldur var andinn allsráðandi. Þetta varð til þess að þeir túlkuðu bókstafinn eftir eigin geðþótta eins og einkennir vakningar enn í dag.

  9. Vissulega er ég meðvitaður um félagslega vídd píetismans Torfi, enda diakonissustofnanir Evrópu á 19. öld afleiðing píetismans og staða mín sem djákni afleiðing diakonissustofnananana. Hins vegar er áhugavert hvað þessi áhersla verður hverfandi í síðari tíma hreyfingum eins og vakningabylgju Ole Hallesby í kringum 1936 sem markar upphaf KSF og síðar KSS. Eins er óhætt að segja að kirkjan sjálf, þ.e. nýguðfræðingar í upphafi 20. aldar hafi átt sinn þátt í að draga úr félagslegu vídd píetismans hér á landi með því að mæta hugmyndum um diakonissustofnun af skilningsleysi og mótþróa.

  10. Hér má líka velta upp hvort að píetisminn hafi þróast á ólíka vegu í NorðurEvrópu í bæjum annars vegar og sveitum hins vegar. Við sjáum að félagslega víddin er að mestu bundin við borgarumhverfið en gróðrarstía skemmtanabannsins er dreifbýlið. Við vorum auðvitað bara dreifbýli hér á Íslandi.

Comments are closed.