Á flótta

Það er skelfileg tilhugsun að halda á opnum báti út á haf, í von um að mennirnir sem þú borgaðir muni sigla þér þangað sem þeir segjast ætla að fara. Vitandi það að báturinn sem lítur svo sem ekki endilega út fyrir að vera sjófær, er samt líklega þinn besti séns, enda ekkert nema rústir og hungur sem býður að öðrum kosti.

Ég var þarna einu sinni. Þurfti að meta sjómennina sem buðust til að sigla mér í skjól, þurfti að meta aðstæður, velja hvort ég vildi sitja í ofhlöðnum opnum bát með utanborðsmótor í miðju karabíska hafinu, eða sitja kyrr í matarleysinu, eymdinni og óvissunni í kjölfar jarðskjálftans á Haiti.

Ég vissi samt sem var hvað beið mín á ströndinni hinum megin. Það var á þeim tíma ekki raunveruleg hætta á að við yrðum stöðvuð af herskipum/varðskipum. Þó vissulega þyrftu Haitibúarnir sem fengu far með bátnum að fela sig fyrir dómínísku hermönnunum eftir að við komum í land. Ég var í miklu betri aðstæðum en flest þau sem stíga um borð í bátana sem sigla á Miðjarðarhafinu og eiga þá einu von að ástandið verði ögn skárra en það sem þau búa við nú þegar. Þegar ég heyri hugmyndir um að nota hervald og ofbeldi til að stöðva einu vonina sem fólk telur sig hafa, þá fyllist ég sorg og skömm. Ég reiðist yfir viðbrögðum þeirra sem telja að lausnin felist í því að segja að vandamálið sé ekki til eða komi þeim ekki við. Ég fyllist hryllingi yfir mönnum eins og Tony Abbott, sem telur að það sé hlutverk sitt að drepa vonarneista fólks í hörmulegum aðstæðum.

Helmingurinn af hópnum sem ég tilheyrði fékk far með öðrum bát. Báturinn sem ég var í  komst að landi á undan. Við biðum á ströndinni og eftir klukkustundarbið gekk sólin til viðar. Biðin var það versta, biðin eftir bátnum sem við vissum ekki hvar var. Biðin í myrkrinu var næstum óbærileg, kannski var vonin ekki þess virði.

Við biðum líklega í nærri tvo tíma þar til við sáum glita í hinn bátinn í tunglskininu. Tilfinningin  var ólýsanleg, tilfinning sem fjöldi fólks við Miðjarðarhafið fær aldrei að upplifa, því hinn báturinn kemur aldrei.

Það er kannski eðlilegt að spurt sé, hvað er til ráða? Svörin eru ekki einföld en það er alveg ljóst að þau felast ekki í því að drepa vonarneista flóttafólks, með því að beita hervaldi gegn fátæku fólki eða með því að loka landamærum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.