En þegar aðkomumaður nýtur verndar meðal ykkar eða einhver, sem hefur dvalið hjá ykkur í marga ættliði, færir Drottni eldfórn sem þekkan ilm skal hann fara eins að og þið. Ein og sömu lög gilda fyrir ykkur og aðkomumann sem nýtur verndar, það er ævarandi lagaákvæði sem gildir frá kyni til kyns. Sömu lög og sömu reglur gilda fyrir ykkur og aðkomumann sem nýtur verndar hjá ykkur.
Áherslan á að sömu lög gildi fyrir aðkomumanninn og Ísraelsþjóðina er mjög sterk í þessum köflum 4. Mósebókar. Það er sér í lagi áhugavert að lesa þau í samhengi mismunandi hugmynda um fjölmenningu og viðbrögð við henni (sjá t.d. fyrirlestur á Sæludögum sumarið 2014).
Nákvæmar lýsingar á fórn, klæðnaði og helgihaldi einkenna textann. Gerður er greinarmunur á óhöppum, óviljaverkum og synd af ásetningi. Þannig fyrirgefur Guð óviljaverk og yfirsjónir,
En sá sem syndgar af ásetningi, …, hefur smánað Drottin: Sá maður skal upprættur úr þjóð sinni.
Þannig er í textanum tekið dæmi af manni sem safnar viði á hvíldardegi sem er tekinn af lífi að kröfu Guðs. Textinn birtir mynd af kröfuhörðum Guði, sem tekur andspyrnu illa. Það er lítið rými fyrir hálfvolga, annað hvort ertu með eða ekki.