Spádómsbók Haggaí er fyrst og fremst ákall um að flýta endurreisn musterisins eftir herleiðinguna til Babýlóníu.
Þið hafið vænst mikils en ykkur áskotnast lítið og ég hef blásið burt því sem þið fluttuð heim. Og hvers vegna? – Segir Drottinn allsherjar. Vegna húss míns sem liggur í rústum meðan sérhver ykkar er á þönum við eigið hús.
Ákalli Drottins í gegnum spámann sinn Haggaí er svarað af Serúbabel landstjóra í Júda og bygging musterisins er sett í forgang.
Skilaboðin eru til þjóðar að taka sig saman í andlitinu og horfa sameiginlega til framtíðar, musterið er enda táknmynd þjóðar, þess sem við erum saman.
Auðvitað er hægt að horfa á þennan texta mjög gagnrýnum augum, því þó musterið sé um margt sameiningartákn, grundvöllur borgaraátrúnaðar, þá má ekki gleyma að borgaraátrúnaður og miðlægni musterisins er táknmynd elítunnar, valdakerfisins sem mergsýgur ekkjur og munaðarleysingja.
Markmið borgaraátrúnaðar er að viðhalda og styrkja ríkjandi samfélagsástand. Ákall Haggaí er þannig ákall eftir sterkum ráðandi valdakjarna í Jerúsalem. Sjálfsagt er rétt að miðstýring stuðlar að betri nýtingu afurða, hjálpar samfélaginu til að takast á við uppskerubrest, en það er oft á kostnað einstaklinga.