Þegar Háskóli Íslands leitaði til Jóns Baldvins Hannibalssonar um um að kenna hluta af námskeiði við skólann, skrifuðu tvær konur bréf. Inntak bréfsins var að þær töldu að einstaklingur sem hafði sannanlega viðhaft kynferðislega tilburði gagnvart barni og hafði skrifað lýsingar á heimsóknum til vændiskvenna þegar hann var í opinberum erindagjörðum í löndunum sem honum var ætlað að kenna um, ætti ekki heima sem kennari við Háskólann.
Þrátt fyrir að það væri ekki orðað með beinum hætti í bréfi þeirra, þá má öllum vera ljóst að vera Jóns Baldvins Hannibalssonar í valdastöðu kennara við Háskólann hefði verið ógn við þolendur kynferðisofbeldis sem hefðu hugsanlega þurft að sitja undir kennslu hans og vart skólanum til framdráttar að einstaklingur sem hafði sannanlega misnotað sér neyð kvenna í Eystrarsaltsríkjum væri fenginn til að kenna um stöðu þeirra.
Mál Jóns Baldvins Hannibalssonar var leyst með því að Háskóli Íslands bað Jón afsökunar á að hafa dregið beiðnina um kennslu til baka og greiddi honum bætur. Hildur Lilliendahl hefur réttilega bent á að ákvörðun Jóns Baldvins Hannibalssonar um að þiggja bætur, gefi til kynna að Jón Baldvin Hannibalssonar skilji ekki alvarleika málsins.
Gunnar Björnsson, þá prestur á Selfossi, braut á sínum tíma kynferðislega gegn unglingsstúlkum, þrátt fyrir að Hæstiréttur kæmist að því að hegðun hans hefði ekki brotið gegn lögum. Af lögformlegum ástæðum gat kirkjan ekki sagt Gunnari upp, en færði hann til í starfi og greiddi honum laun um langa hríð.
Þessi mál eru tiltölulega einföld, þ.e. flestir skynsamir einstaklingar sjá í hendi sér hversu óeðlilegt það er að leyfa þekktum ofbeldismönnum að sitja í valdastöðum, hvað þá að bjóða þeim valdastöður þar sem þeir eiga tiltölulega auðvelt með að misnota völd sín, eða eru ógnun við aðra með veru sinni.
Hér er rétt að gera þann fyrirvara að ofbeldismenn eru ekki sérþjóðflokkur, aðgreindur frá okkur hinum á einn eða neinn hátt, við erum öll hæf til að nota ofbeldi í samskiptum, á sama hátt og við erum öll hæf til að sýna góðmennsku og kærleika. Þegar ég vísa hér til ofbeldismanna þá er ég að vísa til einstaklinga sem hafa sannanlega notað ofbeldi til að koma vilja sínum fram.
Flóknari spurningar felast í vangaveltunum um hvernig við tökumst á við fræðirannsóknir sem unnar hafa verið af ofbeldismönnum eða bregðumst við listaverkum sköpuðum af ofbeldismönnum.
Á þessum vef í dag, fjallaði ég um grein John H. Yoder um samspil kristni og lýðræðis. Það er hafið yfir vafa að um áratugaskeið braut Yoder ítrekað kynferðislega á kvenfólki sem voru í námi hjá honum og/eða störfuðu með honum. Þrátt fyrir þetta tel ég að hugmyndir hans um lýðræði skipti máli, þó það sé vissulega mikilvægt að velta fyrir sér merkingu þess að Yoder leitast við að skilgreina sjálfan sig og trúarskoðanir sínar sem minnihlutahreyfingu, sem þarfnist varnar.
Á sama hátt má velta fyrir sér hvort að guðfræðilegar hugmyndir Karl Barth um hjónabandið séu marklausar í ljósi hans eigin lífs, hvort og hvernig við hlustum á John Lennon syngja Imagine og Give Peace a Change, í ljósi þess ofbeldis sem hann beitti fyrri konu sína. Þá má velta fyrir sér trúverðugleika Bill Clinton, sem misnotaði stöðu sína gagnvart starfsnema í Hvíta húsinu.
Mál Woody Allen er af sama meiði. Það er hafið yfir allan vafa að hegðun Allen þegar kemur að valdastöðu og kynferðismálum er brenglað. Sú ákvörðun hans að ganga að eiga núverandi konu sína, sem um tíma var dóttir sambýliskonu hans er misnotkun á valdi. Frásögn Dylan Farrow styrkir og dýpkar þá mynd sem Allen teiknaði sjálfur af sér sem ofbeldismanni með kynferðislegu sambandi sínu við dóttur sambýliskonu sinnar.
Spurningin sem við verðum að spyrja okkur er hvort og hvernig þessi vitneskja mótar og hefur áhrif á list Allen. Eru myndirnar hans kannski margar hverjar tilraun til að fá samþykki og viðurkenningu á markaleysinu. Er Allen e.t.v. að reyna í list sinni, á svipaðan hátt og Yoder sem ég nefndi hér áður, að skilgreina sig sem fórnarlamb, til þess eins að réttlæta fyrir sjálfum sér ofbeldishegðun sína. Ef svo er, hvernig nálgumst við þá list hans? Tökum við þátt í listinni, getum við notið myndanna, ef sköpun þeirra er tilraun til sjálfsréttlætingar ofbeldismanns?
Það eru auðvitað engin endanleg svör. Það má færa fyrir því rök að þegar lista- og fræðimenn sleppa hendinni af verkum sínum, hafi þeir í raun glatað yfirráðum sínum og túlkunarmöguleikum og listin lifi sjálfstæðu lífi.
Eitt er hins vegar ljóst. Þrátt fyrir að e.t.v. sé flókið að meta rétt og rangt þegar kemur að listsköpun og fræðimennsku ofbeldismanna, þá er alls ekki flókið að skilja að ákvörðun um að veita þeim ekki áhrifavald í kennslurými eða í kirkjunni er mun auðveldari og augljósari.
Eftirþankar:
Þetta blogg er skrifað til að halda saman á einum stað hugsunum mínum og því er áhugavert þegar einstaka færslur verða „viral“ enda efnið hér oft fremur sértækt. Þessi færsla hefur til að mynda hlotið gífurlega athygli og þrátt fyrir að hafa verið endurbirt á kvennabladid.is og fengið mikinn lestur þar þá hefur engin færsla verið heimsótt jafnoft á igrundun.wordpress.com.
Það er samt athyglivert að engin umræða hefur skapast í ummælaþræðinum hér eða á kvennabladid.is ennþá. Ég hef hins vegar rekist á athugasemdir annars staðar, þar sem færslan er gagnrýnd fyrir nokkra þætti, sem mig langar að halda til haga hér.
i. Ferðalag Jóns Baldvins Hannibalssonar til Eistlands sem nefnt er í póstinum var ekki opinber heimsókn eins og stendur hér að ofan, heldur einkaheimsókn til forseta Eistlands. Það breytir þó engu um inntak og innihald færslunnar.
ii. Woody Allen var ekki sambýlismaður Mia Farrow, enda héldu þau tvö heimili allan þann tíma sem þau voru par. Þetta er tæknilegt atriði, enda skortir gott orð til að lýsa fjarbúðarsambandi þar sem ekki er um hjónaband að ræða. Það er alla vega óumdeilt að þau voru par, áttu í ástarsambandi og ættleiddu börn saman, þrátt fyrir þetta „sambúðarform“.