Þegar Ísraelsþjóðin kemst heim úr herleiðingunni til Babýlon verður allt gott. Framundan eru nýjir og góðir tímar, auðsæld og gleði. Hér talar Deutoro Jesaja um að Guð hafi yfirgefið Ísraelsþjóðina um tíma, og skilið hana eftir sem ekkju. En nú verður allt gott á ný.
Já, Drottinn kallaði þig
eins og yfirgefna konu og harmþrungna
en hver getur hafnað konu
sem hann eignaðist í æsku? segir Guð þinn.
Skamma stund yfirgaf ég þig
en af mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
Í ólgandi heift huldi ég auglit mitt fyrir þér um stund
en miskunna þér með ævarandi kærleika,
segir Drottinn, lausnari þinn.
Það er auðvelt að sjá heimilisofbeldisstef í þessum texta. Guði er lýst sem ofbeldismanni sem niðurlægir og smánar, yfirgefur og hafnar, en er núna tilbúin til að gera allt gott. Það er ekki ósennilegt að þannig hafi margir í herleiðingunni séð Guð. Guð sem lofar og svíkur, en nú, nú þegar þau færu aftur til Jerúsalem, þá verður nýtt upphaf og allt verður gott.