Eitt af einkennum kerfisbundins misréttis er ósýnileikinn. Þegar reynt er að benda á tilvist kerfisbundins misréttis eða ef út í það er farið kerfislægrar kynþáttahyggju, er viðhorf forréttindafólks oft á þá leið að það persónulega séu góðar manneskjur. Við sjáum þetta í umræðum um feminisma, rasisma, fátækt og í trúarlegri umræðu. Og hér er mikilvægt að taka fram að ég er í ríkjandi stöðu þegar kemur að umræðunni um öll þessi mál. Ég er giftur karl, hvítur, vel stæður og kristinn og ég er ekki vondur.
Það breytir því samt ekki að vöruúrvalið og grænmetið er betra í „hvítu“ Giant Eagle versluninni í Beachwood, en í „svörtu“ Giant Eagle inn í Cleveland, sem ég villtist í í gær. Það breytir því ekki að gifti karlinn með fallegu börnin og glæsilegu konuna malaði síðustu prestkosningar á Íslandi og konurnar áttu ekki séns, þrátt fyrir mikla reynslu í starfi. Það breytir því ekki að lögreglan skilur ekki af hverju það að dreifa svínshausum, rífa helgirit og mála krossa á lóð óbyggðrar mosku er hatursglæpur. Það breytir því ekki að ég mun aldrei þurfa að ganga um í stuttermabol með skilaboðum sem mér líkar ekki, því það var eina flíkin sem passaði hjá Hjálpræðishernum.
Allt er þetta samt fremur mjúkar afleiðingar kerfisbundna misréttisins og sjálfsagt einfalt að burtskýra þetta allt og ég geri það sjálfur. Ég nefnilega veit að ungi gifti karlinn var langhæfastur, ég hefði kosið hann sjálfur. Veitti honum meira að segja aðstoð í kosningabaráttunni. Ég veit að fína grænmetið selst ekki jafnvel inn í Cleveland og í Beachwood. Ég veit að lögreglunni var sagt að svínshausarnir og krossinn hefði verið fíflaskapur. Við sem erum eins og ég, burtskýrum nefnilega kerfislæga kynjamisréttið, rasismann, fátæktina og trúarlegu forréttindin vegna þess að annars þyrftum við að fást við sektarkenndina og horfast í augu við okkar eigin forréttindastöðu.
Stundum gerist það samt að kerfislæga óréttlætið og ógeðið brýst út, sýnir sitt rétta andlit og við lendum í vandræðum. Oft björgum við okkur fyrir horn og bendum á að rasistarnir sem birtust í einhverjum mótmælum með nasistafána séu nú frávik og sjálf minnipokamanneskjur eða að Gillzeneger sé bara misheppnaður grínisti og tilheyri kúltur sem gagnrýnendur skilji ekki.
Myndin sem birtist á síðu 8 í Morgunblaðinu í dag, 10. desember, verður hins vegar ekki burtskýrð. Rasisminn, fordómarnir, sjálfhverfan, skíthælisminn og ógeðið sem sú mynd birtir verður einfaldlega ekki afsakað eða burtskýrt með neinu móti. Ég var starfsmaður Morgunblaðsins, blaðberi í mörg ár. Ég brást ekki sérstaklega við þegar Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri. Ég skil að blaðið hefur tekið afstöðu með LÍÚ, og get sætt mig við það þó ég sé ósammála og telji það skaðlegt. Ég undrast stundum það aðsenda efni sem er birt, en myndin á síðu 8 fer yfir strikið. Hún er ógeðsleg, hún birtir kerfisbundna rasismann og illmennskuna sem er undirliggjandi í íslensku samfélagi og gefur þeim vægi.
Í dag gáfu Davíð Oddsson og Óskar Magnússon út yfirlýsingu um að rasismi sé sjálfsagður í opinberi umræðu. Um leið réðust þau á starf íslenskra hjálparsamtaka á erlendri grund. Ég er ekki reiður, ég er sár, því ég hélt að blaðið mitt, Morgunblaðið, hefði enn snefil af sjálfsvirðingu, en NEI.
(Færslunni hefur verið breytt og ég bið Guðbjörgu Matthíasdóttur afsökunar á að hafa sett nafn hennar í þessa grein í upphafi. Ég hélt að hún væri meirihlutaeigandi Morgunblaðsins sem hún er ekki.)