Ríki Guðs mun koma. Jesaja er þess fullviss.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
Það er skemmtilega sjálfhverft að í lýsingunni á Guðsríkinu í þessum kafla, sé ég Vatnaskóg. Lind hjálpræðisins er í mínum huga bókstaflega í Lindarrjóðri. Þegar ég geng yfir brúna að kapellunni þá er ég í ríki Guðs.
Þessi upplifun er áhugaverð líka í því ljósi að það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera í Vatnaskógi. Ég hefði alveg viljað sleppa því að kynnast ýmsu sem ég hef séð og upplifað þar. Ég veit líka eins vel að fyrir sumum eru minningarnar úr skóginum alls ekki góðar og jákvæðar.
En um leið, þá hef ég alltaf upplifað nándina, kyrrðina og fögnuðinn í Vatnaskógi sem eitthvað raunverulegt og ekta. Tilraun til að skapa ríki Guðs á jörðu, af veikum mætti mistækra manneskja.
Guðsríkið er ekki átakalaust, réttlætið er oft óþægilegt. Á himnum verður fólk sem okkur finnst ekki að eigi að hafa sæti við borð Guðs. Á þann hátt er Vatnaskógur smámynd mín af himnaríki og 12. kafli Jesaja birtir mér þá mynd.