Dæmisaga Jesú í 12. kaflanum er harkaleg og kallast á við frásögu Fjodor Dostojevski í The Grand Inquisitor í Karamasov bræðrunum. Guð fól þjóð sinni allt, þegar spámennirnir komu og kölluðu eftir réttlæti og friði, voru þeir svívirtir, sbr. Jeremía og fleiri.
Ögrun Jesú fólst í að nefna sjálfan sig í upptalningu spámannanna. Nú munuð þið taka mig og drepa mig, til þess eins að forðast að horfast í augu við sjálf ykkur er inntak dæmisögunnar í upphafi. Lausn fræðimannanna og faríseanna var að blanda rómverska heimsveldinu í málið. Með því móti var hægt að fjarlægja Jesús, án þess að óttast að bakslagið lenti á faríseunum og fræðimönnunum sjálfum.
Gildran var sett,
Meistari, við vitum að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins enda gerir þú þér engan mannamun heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum við að gjalda eða ekki gjalda? …
En Jesús sagði við þá: „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“
Svarið er margbrotið, túlkanirnar ótalmargar. Hvað er Guðs? Hvað er keisarans? Hvernig sem við skiljum svarið, þá er ljóst að Jesús greinir á milli Guðs og keisarans. Að mati Jesú er keisari Rómarveldisins, „Sá sem valdið hefur“, ekki Guð. Guð er annar og meiri, Guð er sá sem hann er.
Hægt er að lesa út úr svarinu, skemmtilega leið til að koma sér hjá svari. Hægt er að sjá hvatningu til að borga skatt til löglegra yfirvalda. Hægt er að sjá tilraun til að greina á milli hins veraldlega og andlega. Reza Aslan virðist benda á í bók sinni, “Zealot: The Life and Times of Jesus of Nazareth” að svar Jesús sé ögrun við vald keisarans, e.t.v. ákall um að keisarinn og hyski hans eigi að taka sitt og koma sér burt. Hugsanlega er slík túlkun orðum aukin, en vissulega felast í orðunum skilaboð um að máttur keisarans sé takmarkaður, keisarinn sé ekki sannur guð.
Áfram heldur rökræðan, fræðimenn, farisear og saddúkear varpa fram mótsagnakenndum spurningum um tæknileg trúarleg atriði, til að leitast við að fá Jesús til að tala af sér. Hvað gerist við upprisuna, hvaða boðorð er mikilvægast og svo framvegis.
Þegar Jesús sest niður í helgidóminum og byrjar að kenna, þá kemur e.t.v. stærsta höggið á sjálfhverfu trúarstofnunarinnar. Jesús gagnrýnir fræðimennina fyrir að misnota aðstöðu sína og mergsjúga heimili ekkna. Til að styrkja mál sitt sest Jesús ásamt lærisveinum sínum gegnt fjárhirslunni í musterinu til að fylgjast með.
Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“
Það er með ólíkindum hvernig kirkjunni um aldir hefur tekist að misnota þennan texta sér til framdráttar og til þess að sannfæra fátæka um að gefa af skorti sínum. Í algjöri andstöðu við samhengi textans. En ég hef skrifað um túlkanir á þessari frásögn áður (sjá: Eyrir ekkjunnar).
One thought on “Markúsarguðspjall 12. kafli”