Að koma fram sem sá sem valdið hefur, kýrios er gríska orðið í 3. versinu, er það sem einkennir þessa frásögn. Fyrir nokkrum árum var ég mjög upptekinn af því að valdið er í höndum þess sem tekur sér það. Í umræðum við samnemendur mína í Trinity Lutheran Seminary, sagði ég oft „Claim Your Authority“. Í þessum kafla mætum við Jesú sem hefur valdið, eða öllu fremur tekur sér valdið.
Ef einhver spyr ykkur: Hvers vegna gerið þið þetta? þá svarið: Drottinn (bókstafleg þýðing er: „Sá sem valdið hefur“) þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.
Um leið og sagan um fíkjutréð endurspeglar vald Jesú, þá er hún óþægileg. Hún gefur í skin misnotkun á valdi. Jesús hefði átt að vita betur, en hugsanlega er hún sett hér inn fyrst og fremst til að sýna fram á að Jesús hefur vald yfir öllum hlutum.
Þegar Jesús kemur í musterið, er ljóst að tengingum er kastað. Viðskiptamódeli trúarstofnunarinnar er ógnað þegar Jesús gengur inn og rekur sölumennina á burt. Við fáum enda að heyra að stofnunin hyggst bregðast við.
Jesús segir lærisveinum sínum að ganga fram í trú og trausti, að taka það vald sem Guð hefur gefið þeim. Hins vegar neitar hann að svara spurningu fræðimannanna og öldunganna þegar þeir spyrja:
Með hvaða valdi gerir þú þetta? Hver gaf þér það vald að þú gerir þetta?
Enda veit hann mæta vel að hvert sem svarið er, þá er niðurstaðan guðlast.