I kjölfar grunnreglna YHWH sem sagt er frá í 20. kaflanum fylgja ýmis lög sem við komum til með að skanna yfir í næstu köflum.
Meginmarkmið laganna er í anda grunnreglnanna. Þannig er lögð ofuráhersla á virðingu gagnvart yfirvaldi og brot á slíkum lögum varða dauðarefsingu. Þá er fjallað um réttindi þræla og gerður greinarmunur á morði og manndrápi af gáleysi.
Ofbeldisglæpir af ýmsu tagi eru skilgreindir og gerð grein fyrir mismunandi refsingu. Refsingar við brotum gegn þrælum eða ambáttum, þýða oftast nær frelsi til handa þeim. Aðrar refsingar eru að öllu jöfnu dauðarefsing, útlegð eða fébætur. Á þessu er þó ein merkileg undantekning í þessum kafla.
Glæpur þar sem ófrísk kona missir fóstur vegna slagsmála tveggja einstaklinga er nefndur sérstaklega. Það er athyglisvert í því sambandi að fósturmissirinn varðar bótaskyldu, en slasist móðurin að öðru leiti þá á við að beita:
… auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, fót fyrir fót, brunasár fyrir brunasár, sár fyrir sár, …