Tengdafaðir Móse heimsækir tjaldbúð Ísraelsþjóðarinnar í þessum kafla sem fjallar um mikilvægi þess að góður stjórnandi deili verkefnum og sé ekki með puttana í smámálum, enda hægi það á ákvarðanatöku og gangi fram af öllum. Ekki bara leiðtoganum sem þarf að skipta sér af öllu, heldur líka þeim sem þurfa endalaust að bíða eftir úrlausn sinna mála.
Tengdafaðir Móse leggur sem sagt til að Móse dragi úr vinnu og deili verkefnum sínum með öðrum. Eins leggur hann til að Ísraelsþjóðin komi sér upp skilgreindum lögum og verkferlum í mismunandi málum, enda leiði vel skilgreind lög til þess að fólk taki meiri ábyrgð á eigin gjörðum. Eins verði niðurstaða einstakra mála ekki háð persónulegum þáttum dæmenda eins og annars væri.
Með öðrum orðum. Vel skilgreind verkferli, vönduð verkaskipting og skýr upplýsingagjöf til allra er lykill að góðri stjórnun. Það hefði verið hægt að sleppa því að skrifa svona sirka 70% af öllum stjórnunarfræðibókum á 20. öld með því að ljósrita 18. kaflann í 2. Mósebók og dreifa honum.