Frásögn um væl í lok 15. kafla er endurtekin hér, þó að staðarnöfn séu önnur. Ástæða þess getur hugsanlega verið sú að sagan hefur varðveist í fleiri en einni munnlegri geymd og hver hefur notast við þekkt kennileiti í sínu nærumhverfi. Þegar sögunum var síðan safnað í eitt rit, þá hefur verið ákveðið að halda fleiri en einni sögu til haga.
Í seinni hluta kaflans er sagt frá átökum Ísraelsþjóðar og Amelek. Áherslan er á kraft Móse sem hins sanna leiðtoga. Meðan hann stendur og heldur staf sínum á lofti vegnar Ísraelsmönnum betur, en jafnskjótt og Móse lætur hönd sína síga, gekk verr. Enn er minnt á að Ísraelsmenn geta ekkert í eigin krafti, árangur þeirra er alltaf háður vilja Guðs (Hér sjáum við dæmi um hvernig Móse fær allt að því guðlegan status í textanum).