YHWH reddar vatni í eyðimörkinni, en það stoppar ekki hringingarnar í 113. Það er óþolandi að búa við óöryggi.
Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni og sagði við þá: „Betra væri okkur að við hefðum fallið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi þegar við sátum við kjötkatlana, þegar við átum okkur södd af brauði. En þið hafið leitt okkur út í þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan söfnuð farast úr hungri.“
Söfnuðurinn er með öllu ósjálfbjarga í nýjum aðstæðum og möglið er óstöðvandi. Guð sendir lynghænsn, gefur þeim vatn og brauð eins og hver þarf. Móse segir þeim að taka bara það sem þau þurfa og ekkert meir, en auðvitað eru einhverjir sem taka meira en þeim ber. Það gerist ekki bara í eyðimörkinni.
Á sama hátt gaf YHWH þeim tvöfalt einn dag vikunnar, svo þau héldu hvíldardaginn heilagan, en það voru að sjálfsögðu einhverjir sem reyndu að afla sér extra sjöunda daginn.
Það er á margan hátt magnað og merkilegt að lesa 3-4000 ára frásagnir um væl og græðgi, hræðsluna við breytingar og hegðun tækifærissinna. En hvað um það, ástandið í eyðimörkinni stóð í 40 ár. Þannig að sjálfsagt hafa margir í lokin sagt, en þetta hefur alltaf verið svona!