Hebreabréfið 5. kafli

Guðdómur Jesú er í þessum kafla tengdur við iðrunarskírn Jesú af hendi Jóhannesar. En orðin í 5. versinu:

Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.

Eru án vafa vísun til raddarinnar sem heyrðist frá himnum við skírnina. Í Lúkasarguðspjall 3. kafla og 22. versi segir í íslensku þýðingunni frá 2007 og er þar samhljóða t.d. Markúsarguðspjalli 1.11.

Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.

En eins og hægt er að sjá í neðanmálsgrein við Lk 3.22 í íslensku þýðingunni þá er hægt að þýða textann líkt og hann er skráður í Heb 5.5. Hér er samt rétt að taka fram að í grísku eru setningarnar ekki samhljóða. Þannig er tímaáherslan í Hebreabréfinu á orðin „í dag“ ekki til staðar í orðum Lúkasarguðspjalls. Orðin „í dag“ virðast enda benda til þess að Guðdómur Jesú hafi ekki orðið fullnaður fyrr en við skírnina, en það er t.d. einkenni á villukenningu sem var m.a. haldið á lofti af Theodutusi frá Bysantium á annarri öld. Nágranni minn hér í Chapel Hill, hann Bart Ehrman, telur þessa hugmynd hafa verið áberandi í upphafi kristni.

Hin tilvísunin í textanum er ekki finnanleg í ritningunni.

Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.

Melkísedek kemur fyrir nokkrum sinnum hér í Hebreabréfinu, en er einungis nefndur einu sinni annars staðar í Biblíunni, en skv. 1. Mósebók 14. kafla blessar Melkísedek, Abram (síðar Abraham).

Eins og fram kemur í umfjöllun minni um 1M 14, þá er hlutverk Melkísedeks áhugavert, kannski ekki síst vegna þess að með blessun Melkísedeks virðast renna saman tvær Guðsmyndir eða trúarhefðir. Annars vegar hugmyndin um hin nálæga Jahve (Drottinn), sem fylgdi þjóð sinni Ísraelsmönnum og hins vegar hugmyndin um El (Elyon), eða Guð hins Hæsta.

Guðshugmyndin sem Melkísedek stendur fyrir er e.t.v. guðsmynd prestastéttarinnar, þeirra sem annast samskipti við Guðdóminn fyrir okkar hönd. Þannig gæti þessi áhersla á Melkísedek hér í Hebreabréfinu gefið til kynna að texti bréfsins sé skrifaður af „prestum“ eða kannski öllu fremur „innsta hring“ þeirra kristnu og hugsanlega fyrst og fremst ætlaður þeim sem eru innmúraðir og innvígðir. Þ.e. eins og stendur síðar, fyrir þá sem ráða við fasta fæðu, en ekki bara mjólk.

One thought on “Hebreabréfið 5. kafli”

  1. Smá athugasemdir varðandi Lk 3:22. Orðið “í dag” er þar. Þú ert kannski að horfa á ranga útgáfu, þeas í sumum handritum stendur “Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.” en í öðrum “Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.”

    Varðandi það að höfundur Hebreabréfsins hafi þetta í huga, þá er það alls ekki víst að mínu mati, þar sem þetta vers virðist líka hafa verið tengt við upprisu Jesú, sbr Post 13:13

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.