Barúk lýsir því yfir að alsherjarhrun hafi átt sér stað. Drottinn leyfði ógæfunni að koma yfir þjóð sína, enda hafði þjóðin virt Drottinn að vettugi. En þegar botninum er náð kallar Barúk til Guðs um blessun. Röksemdafærsla Barúks er skemmtileg:
Heyr, Drottinn, bæn vora og ákall og frelsa oss sjálfs þín vegna og lát oss hljóta velvild þeirra sem fluttu oss í útlegð. Þá mun heimur allur komast að raun um að þú ert Drottinn, Guð vor því að Ísrael og niðjar hans eru kenndir við þig.
Orðspor Drottins er nefnilega að veði, að sögn Barúks. Ef Drottinn (Jahve) reisir ekki við Ísraelsþjóðina, er trúverðugleiki Drottins fyrir bí.
Annað stef í þessum kafla snýr að okkar eigin verðleikum. Það eru sjaldnast þau sem vita vel af eigin ágæti og verðleikum sem geta séð Drottinn og réttlæti Guðs.
Nei, það er sá sem er sárhryggur og gengur beygður og vanmegna, það eru depruð augu og sál sem hungrar sem vegsama þig og réttlæti þitt, Drottinn.
Fyrir okkur sem lesum íslensku, búum við gnægtir og frið, þá getur verið erfitt að sjá hlutverk fyrir Guð. Guð er dauður, við teljum okkur hafa tekið yfir hlutverk hans.
Þegar við hins vegar mætum þeim sem ekkert hafa, hvort sem er í fátæktargildrum í Detroit, í 9th Ward í New Orleans eða í flóttamannabúðum á Haiti, þá skín þörfin fyrir réttlæti Guðs og tilvist frelsara í augum þeirra sem standa á móti okkur.
Hroki okkar og sjálfsréttlæting, getur auðveldlega leitt til þess að við teljum okkur fulltrúa réttlætisins og frelsisins, og tilraunir vesturlandabúa til að leysa vanda annarra ber vott um þörf okkar fyrir að taka yfir hlutverk Guðs. Þörf okkar fyrir að vera Guð, en ekki einungis verkfæri skaparans.
En þetta var e.t.v. úturdúr. Vonin um að fá uppreisn æru frá Guði, ef Ísraelsþjóðin þjónar konungi útlegðarlandsins, er lokastef þessa kafla.