Þær eru trendí auglýsingarnar hjá Múla þessa dagana. Þeir bjóða lán til þeirra sem eru í klemmu og fyrsta 10 daga lánið er vaxtalaust. Ef ég geng út frá 10.000 króna láni í 10 daga reynist reyndar lánstökukostnaðurinn 4,5% sem reiknast sem 490% kostnaður á ársgrundvelli. Ef við hins vegar ákvæðum/þyrftum að framlengja lánið um 30 daga, þá myndu 10.450 krónurnar sem við skuldum eftir dagana 10, fyrst byrja að kosta okkur. Miðað við upplýsingar sem ég tók saman á vefsíðu Múla má reikna út að vextirnir af upphæðinni ásamt kostnaði yrði 3.404% á ársgrundvelli.*
Með öðrum orðum ef ég fengi 10.000 króna lán frá Múla 1. febrúar, þá myndi ég skulda 13.450 krónur 1. mars, 18.090 krónur 1. apríl …, 260.582 krónur 1. janúar árið eftir og loks eftir eitt ár 350.483 krónur (Reyndar með fyrirvara um að það er ekki hægt að framlengja láninu án fyrirhafnar í meira en 60 daga).
Svona lánafyrirgreiðsla beinist fyrst og fremst að ungu fólki og fólki sem er í mjög “desperate” aðstæðum og er e.t.v. er ekki mjög meðvitað um vaxtaútreikninga og á erfitt með að sjá heildarmyndina þegar kemur að fjármálum. Með öðrum orðum, Múla leitast við að misnota sér þekkingarleysi og erfiðleika fólks til að græða peninga. Auglýsingarnar beinast að ungu fólki. Á vefsíðunni er talað um peningamál á mannamáli, en samt er ekki hægt að sjá útreikninga á ársvöxtum. En ég skal tala á mannamáli.
Einstaklingarnir sem standa á bakvið fyrirtækið Múla eru siðlausir og leitast við að maka krókinn á þeim sem verst standa. Starfsemi eins og sú sem þeir bjóða upp á er okkur öllum til minnkunar. Í krafti eigin aðgengis að fjármagni, mergsjúga þeir þá sem síst skyldi. Svona starfsemi er ömurleg og hreinlega með ólíkindum að svona starfsemi sé leyfð á Íslandi.
Því miður er ekki hægt auðvelt að finna hverjir standa að baki fyrirtækinu. Heimilisfangið er í Garðastræti og fyrirtækið sem er skráð fyrir léninu heitir TEXTIT ÍSLAND ehf og sagt til heimilis á Reykjavíkurflugvelli. Ef leitað er í fyrirtækjaskrá má reyndar sjá að bæði fyrirtækið Mula ehf og Textit Ísland eru skráð á sama lögfræðing.
En hvað um það, mér er stórkostlega misboðið og minnugur þess að við eigum ekki lengur að þegja heldur benda á illskuna og misgjörðirnar í samfélaginu þá er þetta mitt framlag í dag.
* Í færslunni stóð upphaflega að um væri að ræða 3504% vexti og kostnað á ársgrundvelli. Því miður varð mér á smávægileg reikniskekkja sem ég biðst afsökunar á. Hið rétta er að vextir og kostnaður á ársgrundvelli er 3404%. Yfirleitt munar um skekkju upp á 100%, en í þessu tilfelli hefur það mjög óveruleg áhrif á efni færslunnar.