Áfram heldur gagnrýnin á hegðun landa sinna. Hann bendir á hvernig Norðurríkið, Ísrael, leystist upp en það hafi ekki dugað til. Suðurríkið, Júdea, hafi haldið áfram að sniðganga Guð. Líkingin um ótrúu eiginkonuna er notuð í 3. kaflanum, líking sem er mun þekktari í meðförum annars spámanns, Hósea.
Jeremía kallar Ísrael til iðrunar og minnir á að Guð sé miskunnsamur, en til að miskunn Guðs nái til okkar sé nauðsynlegt að viðurkenna sekt sína.
Þegar við náum að horfast í augu við sekt okkar verður “öllum þjóðum” safnað í Jerúsalem, Norðurríkið og Suðurríkið munu sameinast og allt verður gott. Ríki Guðs verður, svo fremi að við horfumst í augu við illskuna og sviksemi okkar sjálfra.
Hugmyndin um að allar þjóðir safnist saman. Að Guð Abrahams, Jakobs og Móses sé ekki bara fyrir Norður- og Suðurríkið, hefur sjálfsagt ekki verið tekið fagnandi í nærumhverfi Jeremía. En það er mikilvægt að veita þeirri fullyrðingu eftirtekt í framhaldinu.