Ljóðaljóðin eru af sumum talin einhvers konar allegoría um samband Guðs og Ísraelsþjóðarinnar og það sé ástæða þess að textinn sé hafður með í ritningunni. Þannig sé spennan, hræðslan við að glata elskhuganum einhvers konar líking um sáttmála og sáttmálarof Ísraelsþjóðarinnar við Guð.
Slíkar hugmyndir eru í raun fátt annað en tilraun til að hafna því sem textinn er í raun og veru. Lofgjörð um samband tveggja elskhuga. Ljóðabálkur um ástarsamband. Líklega á hræðslan við kynferðislegan tón textans sinn þátt í því að um aldir hafa kristnir menn og konur reynt að líta svo á að textinn sé ekki um það sem hann er.
Ekki er samt ólíklegt að hér sé um að ræða lítúrgíu, einhvers konar helgihald, ekki til að tigna Guð, heldur kynferðissamband tveggja einstaklinga. Þannig liggur beinast við að álykta að hér sé um að ræða hjónavígsluritual.
Ritið hefst á gagnkvæmum ástarjátningum.