Það að við erum niðjar Guðs, erum óendanlega dýrmæt sköpun Guðs eins og góður kirkjuleiðtogi sem ég lít mjög upp til segir svo oft, verður ekki frá okkur tekið.
Páll talar um útlit sitt í þessu sambandi. Það skiptir ekki máli hvert “líkamsásigkomulag” okkar er, við erum Krists. Mér þykir vænt um hvernig hann ítrekar þetta með því að leiðrétta sjálfan sig í setningunni.
En nú, eftir að þið þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir ykkur, hvernig getið þið snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta?
Þetta snýst nefnilega um að Guð þekki okkur, ekki að við þekkjum Guð.
Síðari hluti kaflans er erfiðari viðureignar. Hugmynd Páls um að Ísak hafi notið blessunar en Ísmael ekki og tilraun Páls til að réttlæta það að Hagar hafi verið misnotuð, ganga ekki upp. Hins vegar er ljóst að Páll greinir á milli Jerúsalem sem staðar í Palestínu og himneskrar Jerúsalem. Það er líka greinilegt að Jerúsalem í Palestínu er ekki uppáhaldsstaður Páls, enda heimkynni þeirrar stefnu kristindómsins sem hann gagnrýnir hér mjög harðlega.