Víkur nú sögunni aftur til Ísrael. Jakob sendir 10 af sonum sínum á stað til Egyptalands til að freista þess að kaupa korn, en heldur eftir yngsta syninum Benjamín.
Þegar bræðurnir 10 koma til Egyptalands hitta þeir fyrir Jósef, en þekkja hann ekki. Hann notar túlk í samskiptum við bræður sína og heyrir þá tala um örlög sín. Jósef grætur í einrúmi, ákveður að halda eftir einum bræðra sinna, Símeon, sendir hina á braut með korn og laumar í kornsekkina silfurpeningunum sem bræðurnir notuðu til að greiða fyrir kornið, þannig að það líti út fyrir að þeir hafi rænt því. Jafnframt krefst hann þess af þeim að þeir komi til baka með yngsta soninn, Benjamín.
Jakob verður mjög hræddur þegar þeir koma bara níu til baka og ákveður að fórna Símeon, til þess að Benjamín verði ekki fyrir hnjaski. Hér er rétt að hafa í huga að Benjamín og Jósef voru einu synir Rakelar, sem var uppáhaldskona Jakobs (þetta uppáhaldsdæmi er nefnilega algengt í þessari fjölskyldu).