Gamli karlinn er ekki dauður úr öllum æðum og tekur sér nýja konu eftir að Ísak gengur að eiga Rebekku. Hann eignast nokkurn slatta af drengjum með nýju konunni en svo virðist sem að þeir hafi verið að mestu réttlausir. Það er áhugavert að nýja konan er nefnd á nafn en síðan tekið fram að Abraham hafi einnig átt börn með hjákonum sínum. Öllum þessum börnum var haldið frá ættarauðnum sem rann óskiptur til Ísaks.
Það er áhugavert að við andlát Abraham mætir Ísmael aftur á svæðið og tekur þátt í að grafa karlinn ásamt Ísak bróður sínum.
Rebekka eignast tvíbura með Ísak, þá Esaú og Jakob. Esaú fæddist fyrst en sagan segir að Jakob hafi haldið í hæl Esaú þegar hann kom út. Saga Esaú og Jakobs minnir um sumt á frásöguna af öðrum bræðrum fyrr í 1. Mósebók. Þeir eru kynntir til sögunnar sem andstæður, Esaú, rauðhærður og með mikið líkamshár, slyngur veiðimaður og mikil útivistartýpa. Jakob var hins vegar “gæflyndur og hélt sig við tjöldin.” Nú er það ekki Guð sem gerir upp á milli þeirra, heldur foreldrarnir. Frásagan af því þegar Esaú gefur eftir frumburðarréttinn virðist lýsa Esaú sem hvatvísum, meðan Jakob virðist vera yfirvegaðri.