Ein af grunnstoðum nýfrjálshyggjunnar var/er andlát samfélagsins. Um það eru orð Margaret Thatcher: “There is no such thing as society: there are individual men and women, and there are families” kannski skýrasta dæmið. Án samfélags er engin ábyrgð á öðrum en þér sjálfum og þínum nánustu. Fréttin um slökkvilið smábæjar í Tennessee sem fór eins og eldur um sinu um miðríkin í BNA síðasta haust er dæmi um sigur nýfrjálshyggjunnar á samfélaginu. Nú og svo má nefna árásirnar á stéttarfélög í Wisconsin og Ohio nú á síðustu mánuðum.
Hugmynd nýfrjálshyggjunnar byggir þannig á ábyrðarlausu umhverfi (enda samfélagið ekki til skv. Thatcher). Allt sem ekki er bannað er leyft og markmiðið er umhverfi án boða og banna. Það gengur sú saga að kennari í rekstrarhagfræði í Verkfræðideild Háskóla Íslands á síðasta áratug síðustu aldar hafi bent nemendum sínum á að í viðskiptalífinu bæru þau aðeins ábyrgð gagnvart yfirmanninum sem borgaði launin. Engin önnur ábyrgð væri til. Afleiðing þessarar hugmyndar var auðvitað sú að æðsti yfirmaðurinn bar ekki ábyrgð gagnvart neinum nema sjálfum sér, sem kom hvað best í ljós þegar kennarinn var orðinn bankastjóri. Ábyrgðin hvarf. Allt var leyfilegt, hvort sem það fólst í að ræna sparnaði fólks í Bretlandi og í Hollandi, eða svíkja bílinn sem hann hafði haft til umráða sem bankastjóri út úr þrotabúinu. Þegar hann var síðan spurður út í ábyrgðina í nýlegu blaðaviðtali var hann að sjálfsögðu samkvæmur sjálfum sér og taldi enga ábyrgð til.
Skortur á samfélagslegri ábyrgð hefur auðvitað margar aðrar hliðar. Án sameiginlegrar ábyrgðar leysist samfélagið upp. Í ábyrgðarlausu umhverfi skiptir náunginn ekki máli, ábyrgðarlaust umhverfi telur skattsvik eðlilega sjálfsbjargarviðleitni, ábyrgðarlaust umhverfi leiðir til misskiptingar, í ábyrgðarlausu umhverfi eru engin siðferðisviðmið.
Ábyrgðarlaust umhverfi er fyrst og fremst veruleiki þar sem sterkir einstaklingar fara sínu fram á kostnað þeirra sem minna mega sín, umhverfi þar sem sjálfhverfan er sigurvegari og samkennd er veikleikamerki.
Ég trúi því að þessum hugmyndum beri að hafna afdráttarlaust. Ég lít svo á að íslenskt samfélag beri ábyrgð á gjörðum þegna sinna, jafnvel þegar þeir misnota aðstöðu sína. Þannig berum við sem heild ábyrgð á gjörðum þjóðkjörinna stjórnmálamanna og þeirra embættismanna sem kjörnir fulltrúar okkar skipa. Vissulega þurfa að vera til staðar leiðir til að skipta um fólk, þegar kjörnir fulltrúar og embættismenn bregðast, en í því felst ábyrgð okkar líka, að bregðast við þegar fulltrúum okkar verður á og nota þau úrræði sem til eru til að gera nauðsynlegar breytingar.
Þessi samfélagssýn mín, höfnun á einstaklingshyggju nýfrjálshyggjunnar, hafði áhrif á það hvernig ég kaus í síðustu kosningum sem haldnar voru á Íslandi. Það sem þó er mikilvægara en hvernig ég kaus, er að vegna þessarar afstöðu minnar ber ég sameiginlega ábyrgð með öllum öðrum á útkomu kosningarinnar.
Samfélagsleg ábyrgð kallar mig til að lúta vilja meirihlutans og gangast undir þá ákvörðun sem tekin var, sama hversu heimskuleg og vitlaus ég persónulega tel að hún sé.
E.s. Ég notast hér við hugtakið “nýfrjálshyggja” til aðgreiningar frá frjálshyggjuhugmyndum sem eiga uppruna sinn í skrifum m.a. manna eins og J.S.Mill og A.Smith, en í hugmyndum þeirra var lögð mikil áhersla á að skilgreina og útskýra ábyrgðarhugtakið. Nýfrjálshyggjan er í megindráttum ólík fyrri hugmyndum frjálshyggjumanna vegna þess á hvaða hátt ábyrgðarhugtakinu hefur verið úthýst.