Þessi kafli brýtur upp söguna af Jósef og beinir sjónum okkar annað. Júda, sonur Jakobs og Leu, flytur burtu frá bræðrum sínum og giftist inn í kanverska fjölskyldu. Elsti sonur Júda deyr ungur stuttu eftir að hafa gengið að eiga konu að nafni Tamar og segir frásagan að ástæða andlátsins hafi verið að hann hafi vakið andúð Drottins (Jahve). Annar sonur Júda, Ónan, fær það hlutverk að viðhalda ættinni með því að geta barn með Tamar. Hann kærir sig ekki um hlutskipti sitt og passar að Tamar verði ekki ólétt við samfarir þeirra, með því að rjúfa þær áður en hann fær sáðlát. Af þessum sökum skapar hann sér einnig andúð Jahve og deyr.
Tamar er þannig ekkja, án afkomanda, og þriðji sonur Júda er of ungur til að geta tekið hana að sér.
Sagan segir frá því þegar Tamar býr sig sem portkonu þegar henni er ljóst að hún muni ekki ganga að eiga þriðja soninn og sem portkona fær hún Júda til að sofa hjá sér. Við þær samfarir verður hún ófrísk og endurheimtir stöðu sína sem ættmóðir. Það er tekið fram að hún eignaðist tvíbura og líkt og áður er ýjað að samkeppni þeirra á milli um að vera frumburður.
Við sjáum aftur og aftur í þessum frásögnum 1. Mósebókar spennu á milli fjölskyldu og einstaklinga, milli hefða og erfðaréttar og framavona. Þannig er bara pláss fyrir einn ætthöfðingja og jafnvel við andlát frumburðarins, þá ber þeim sem á eftir koma að þjóna honum áfram, jafnvel sem staðgöngufaðir eins og þessari frásögn.
Það er auðvitað líka áhugavert/óhugnanlegt hvernig hegðun Ónan hefur verið notuð sem rök gegn kynlífi sem ekki er ætlað að geta börn. Þannig er þessi saga notuð til að berjast gegn smokkum á þeim forsendum að ekkert sæði eigi að fara í jörðina, slíkt kalli á andúð Jahve. Slíkri túlkun tekst fullkomlega að líta framhjá inntaki textans og þeim aðstæðum sem sagan gerist í. Andúð Jahve er augljóslega ekki vegna sæðis sem fer til spillis, heldur vegna þess að Ónan hafnar hlutverki sínu sem staðgengill bróður síns. Hann brýtur á hefð ættarveldisins.