1. Mósebók 37. kafli

Það einkennir “hetjur” Gamla testamentisins, a.m.k. hetjur fyrstu Mósebókar að þær eru ekki beinlínis skemmtilegir karakterar. Þannig er sjálfhverfa Jósefs eins og henni er lýst í fyrri hluta þessa kafla fremur óþolandi. Enda finnst jafnvel föður hans nóg um. Það er jafnvel nefnt að hann hafi baktalað þá bræður sína sem hann hékk þó mest með.
Sagan um “uppáhaldsafkvæmið” er gegnumgangandi í fjölskyldunni sem er viðfang síðari hluta fyrstu Mósebókar, þannig höfum við Ísak (en ekki Ísmael), Jakob (en ekki Esaú) og nú er það Jósef en enginn hinna. Jósef þarf ekki einu sinni að standa í því að gæta hjarðarinnar, hinir bræðurnir eru látnir vinna, meðan hann hangir heim.
Þegar Jósef fer síðan til að fylgjast með bræðrum sínum vinna, þá ákveða bræður hans að losa sig við hann fyrir fullt og allt. Þeir ráðast að Jósef, rífa hann úr fötunum og kasta honum í gryfju með það í huga að drepa hann. Planið breytist og í stað þess að myrða hann þá ákveða þeir að selja hann í þrældóm. Meðan þeir bræður eru að plotta framhaldið, þá er Jósef rænt af hópi kaupmanna, sem selja hann í burtu. Þeir bræður sitja í súpunni, þeir hafa föt Jósefs í fórum sínum og sjá fram á að þurfa að útskýra fyrir föður sínum hvað gerðist. Þeir ákveða að plotta áfram, dýfa kirtlinum í blóð og afhenda Jakobi með þeim orðum að þeir hafi fundið hann á víðavangi.

Líkt og í kaflanum á undan er Guð hvergi nálægur, vissulega er þó talað um drauma og við heyrum að Jakob gerir ráð fyrir að stíga til heljar við dauða sinn.