Svæðið er ekki nógu stórt fyrir þá báða, Jakob (aka Ísrael) og Esaú, svo Esaú flytur á brott. Kaflinn gerir grein fyrir ætt Esaú, virðist hálft í hvoru gera ráð fyrir að eitthvað af nöfnunum séu þekkt og ekki er ósennilegt að einhverjar sögur hafi fylgt þessu fólki, eins og t.d. sagan um hverina í óbyggðinni.
Það er samt í raun bara tvennt sem vakti athygli mína í þessum kafla. Annars vegar að nú er í annað sinn kafli þar sem Guð er ekki nefndur, sem skýrist væntanlega af því að Guð er Guð Jakobs, en ekki endilega Esaú.
Hins vegar og þessu tengt, upptalningin á konungum sem ríktu í Edómslandi áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum. En eins og við munum kynnast síðar, þá var hreyfing meðal Ísraelsmanna sem hélt því fram að þjóðin þyrfti ekki konung, enda væri Jahve þeirra leiðtogi. Þannig er sú staðreynd að íbúar Edómslands völdu sér konung óljós skilaboð um að þeir mátu Jahve e.t.v. ekki mikils. Ég mun fjalla ítarlega um þetta síðar í Biblíublogginu enda mun skýrari textar um þetta mál annars staðar.