Verurnar tvær, englarnir sem fylgdu Jahve til Abrahams í síðasta kafla, héldu ferð sinni áfram til Sódómu. Þar mæta þeir Lot sem krefst þess að þeir gisti í húsi sínu í stað þess að leggjast til hvílu á borgartorginu.
Frásögnin sem tekur við er óhugnanleg. Íbúar borgarinnar safnast við hús Lots og krefjast þess að fá gestina afhenta til að geta misþyrmt þeim. Lot neitar, en býður þeim að dætur sínar geti gengið út til múgsins þess í stað. Skylda Lots gagnvart gestunum er sterkari en gagnvart eigin fjölskyldu. Viðbrögð múgsins eru að ásaka Lot um að vera utanbæjarmaður og hann eigi ekkert betra skilið en gestirnir. Ef þú ert ekki með okkur, þá ertu á móti okkur er stundum notað.
Gestirnir, verurnar tvær, hjálpa Lot og fjölskyldu hans að flýja borgina, áður en reiði Guðs leggur hana í rúst. Kona Lots lítur til baka á flóttanum og breytist í saltstólpa er sagt í textanum, táknræn mynd þess að geta ekki sagt skilið við illskuna og hatrið sem Sódóma stendur fyrir.
Þessi saga er oft notuð af bókstafstrúarfólki sem merki um hættuna af samkynhneigð. Sú túlkun er áhugaverð þar sem í sögunni er ekki fjallað um samkynhneigð heldur ofbeldi, ógestrisni og hatur á þeim sem eru öðruvísi, eru ekki við. Það er vegna ofbeldisins, ógestrisninnar og hatrinu á hinum sem Guð er sagður eyða Sódómu. Kannski að einhverjir ættu að fara að vara sig.
Síðari hluti sögunnar um sifjaspell Lots með dætrum sínum er óhugnanleg frásögn og lýsir veruleika sem kallar á fordæmingu og hneykslan. Framsetningin á ábyrgð dætranna er líka óþægileg. Hvað Ísraelum finnst um Móabíta og Ammóníta, meint afsprengi þessara atburða gefur e.t.v. vísbendingu um hvernig litið var á þessa frásögn. Ég hef samt ekki skoðað það sjálfur. Það er ágætt að hafa það í huga þegar við lesum áfram.