Jóhannesarguðspjall 9. kafli

Það er auðvelt að festast í því sem skiptir ekki máli, sérstaklega ef það er erfitt að horfast í augu við aðalatriðin. Þannig hef ég oft lesið þessa frásögn og einblínt á kraftaverkið, hvernig Jesús breytti lífi blinda mannsins og hversu frábært það er að Jesús læknar. Á sama hátt þekki ég góða menn sem gera lítið úr frásögninni og benda í því sambandi á hversu ógeðslegt það sé að blanda saman munnvatni og drullu til að maka í augu einhvers.

En frásagan er ekki um þetta, þó þetta gerist í sögunni. Sagan tekur á róttækan hátt á hugmyndum um fjölskyldukarma (sem er annað en erfðasyndin og ég mun væntanlega fjalla um síðar).  Jesús virðist hafna hugmyndum um að fötlun, í þessu tilfelli blinda, sé á einhvern hátt refsing. Ég veit að ég er undir áhrifum frá fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi þegar ég les í textanum að Jesús hafni því að fötlun sé slæm, skammarleg, eitthvað sem þurfi að lækna. Fötlun er hluti af lífsflórunni og vandinn er ekki fötlunin heldur hvernig samfélagið virðist óhæft til að gefa öllum tækifæri til að blómstra á eigin forsendum.

Við sjáum líka að kraftaverkið sem við einblínum svo oft á, breytir litlu nema fyrir þann sem fær sýn. Ekki einu sinni foreldrar hans verða upphrifnir, heldur virðast hræðast breytingarnar sem verða í lífi þeirra. Enda er það ekki svo að líf mannsins sem áður var blindur verði endilega eitthvað betra, eins og Monthy Python minnti okkur á í sínu guðspjalli. Skyndilega er hann orðinn viðfang trúarleiðtoga samfélagsins sem sjá í honum vandamál.

Viðbrögð faríseanna eru fyrirsjáanleg, lög eru brotin, breytingar virðast í loftinu. Ógnin sem felst í atferli Jesú er ólíðandi. Það sem meira er, með því að lækna blinda manninn ögrar Jesús hugmyndum um að misrétti sé á einhvern hátt vilji Guðs.

Ritari Jóhannesarguðspjall birtir okkur enn á ný mynd af Jesú sem kallar okkur til að líta í eigin barm. Jesús sem minnir okkur á í lok kaflans að það sé blinda okkar á eigin takmörk sem sakfellir okkur.

2 thoughts on “Jóhannesarguðspjall 9. kafli”

  1. Mér finnst merkilegt hvað sumt fólk er til í að alhæfa út frá þessari kraftaverkasögu, en á sama tíma hunsar það algjörlega önnur ummæli og kraftaverk Jesú (t.d. það sem tengist hugmyndum hans um tengsl illra anda og sjúkdóma). Líklega er það, eins og þú bendir réttilega á, að það samræmist ríkjandi sjónarmiðum. Og er fólk sem vill alhæfa út frá þessari sögu líka tilbúið að segja að fólk sé fatlað “til þess að verk Guðs verði opinber á [því]“?

    Með viðbrögð faríseanna/gyðinganna, þá er líka eftirtektarvert hvað þeir eru miklir bíómynda-vondu-karlar. Þeir eru bara illir. Blindur maður fær sýn og það eina sem þeir geta hugsað um er að klekkja á manninum sem læknaði hann.

  2. Þetta er mjög góð ábending Hjalti, sér í lagi seinni hlutinn. Ég tek undir með þér hvernig fræðimennirnir í hópi gyðinga hafa á sér bíómyndablæ vondu kallanna. Þannig er hlutverk Nikódemusar klassískt sem sá í hópi vondu kallanna, sem veit betur og reynir að bæta fyrir illsku sinna manna.

    Nú veit ég ekki hvort þú hefur séð The Adjustment Bureau, en þar kemur þetta Nikódemusar minni fyrir á mjög áberandi hátt.

    Ástæða þessara sterku lita er auðvitað sú að Jóhannesarguðspjall eða svo sem hvert guðspjallanna sem er, eða svo sem öll rit Biblíunnar eru í einhverjum skilningi áróðursrit. Þeim er ætlað að bera ákveðin boðskap. Þau eru ekki tilraun sagnfræðings til að gefa hlutlægar upplýsingar um löngu liðin atburð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.