Að lesa flókna texta

Næsta rit Biblíunnar sem ég ætla að blogga er Genesis eða 1. Mósebók. Það er líklega flóknasta rit Biblíunnar fyrir margar sakir. Ritið er ofið saman úr margvíslegum textum frá mismunandi tímum, sem margir höfðu varðveist í munnlegri geymd jafnvel um aldir. Það eru margar leiðir til að greiða ritið í sundur, sú þekktasta er að greina ritið í J, E og P þræði. J stendur fyrir Jahve eða öllu heldur YHWH, Guð Ísraelsmanna sem gengur úti í kvöldsvalanum í Eden. E stendur fyrir Elohim, Guð alsherjar sem skapar allt og hefur tilhneigingu til að horfa á heiminn úr fjarlægð, Guð sem Bette Midler syngur um í laginu “From a Distance.” Loks stendur P fyrir texta sem eiga líkast til uppruna sinn hjá prestastétt gyðinga í herleiðingunni í Babylóníu.

Þrátt fyrir að aðferðin sé þekkt og barnaleg framsetning mín á hver munurinn sé virki einföld, þá er alls ekki svo að það sé alltaf augljóst hvaðan textarnir eiga uppruna sinn. Þannig er ekki ósennilegt að ritstjórar Genesis hafi í einhverjum tilfellum aðlagað textana og sögurnar hvorri annarri til að láta þær mynda sterkari heild.

Við þetta bætist svo að á ritunartíma Gamla testamentisins virðast hugmyndir um eignarhald á hugverkum hafa verið mun óljósari en þau eru í dag, þannig er í mörgum tilfellum ekki einn höfundur heldur margir sem skrifa undir sama nafni, eins og í tilfelli Jesaja spámanns. Textar taka breytingum yfir tíma til að endurspegla veruleika samtímans og þá er notast á stundum við atburði í fortíðinni til að tala um samtímann. Allt þetta á líkast til við um skrif Genesis, þannig er ritið skrifað af samfélagi yfir langan tíma þar sem Guðsmynd og sjálfsmynd samfélagsins er í stöðugri þróun. Þessi skrif eru hins vegar ekki línuleg, frá því elsta til þess nýjasta, heldur rennur allt saman, á þá vegu sem ritstjórum lokaútgáfunnar hefur þótt henta sínum aðstæðum, sínu samfélagi.

Þessi kaótíska nálgun, veldur því að á stundum er eins og textarnir tali í kross, við mætum endurtekningum eða jafnvel mótsögnum þegar tvær sagnahefðir sömu sögunnar mæta til leiks í textanum. Þetta virðist ekki hafa verið vandamál fyrir ritstjórunum en hefur með risi fundamentalismans eða bókstafstrúarhyggjunnar á 18. öld orðið mikið vandamál fyrir sumum kristnum, sem hafa talið að höfundar og ritstjórar Biblíunnar hljóti að hafa notast við vísindalega aðferð Upplýsingarinnar í framsetningu sinni.

Skrif Biblíunnar eru hins vegar ekki byggð á vísindalegri aðferð Upplýsingarinnar. Í textanum mætum við munnlegri geymd söguhefðarinnar, þar sem áherslan er lögð á sammannlega reynslu og glímuna við að vera manneskja í sambandi við Guð. Gamla testamentið birtir okkur margskonar reynslu og margskonar guðsmyndir, sem við getum speglað okkur í. Við sem segjumst kristin leitumst síðan við að horfa á þessa reynslu og þessar myndir af Guði í ljósi Jesú Krists. Í ljósi þeirrar guðsmyndar sem birtist í frásögum Nýja Testamentisins af orðum hans, lífi og verkum.

Það er hins vegar mikilvægt að geta líka nálgast Gamla testamentið á eigin forsendum, án þess að horfa í sífellu á það í gegnum gler Nýja testamentisins. Þegar ég hefst handa við lestur 1. Mósebókar mun ég reyna að hafa þetta allt saman í huga. Hvort það skili sér er hins vegar alsendis óljóst.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.