Þegar ég les fréttir og lýsingar sjónarvotta í Japan, þá er það spurningin “hvað næst?” sem ég heyri. Hvernig kemst ég heim? Mun ég geta sofið? Hvernig verður á morgun? Hvenær verður næst nýr vinnudagur? Hvernig verður nýja normið?
Fréttir af lækkun á heimsmarkaðsverði olíu eru kaldranalegt svar hins frjálsa markaðar. Afköstin í Japan munu minnka, fólk mun hafa hægar um sig. Sársaukinn og óttinn við framtíðina á einum stað jarðar hefur í enhverjum óendanlega harkalegum skilningi jákvæð áhrif annars staðar. Þegar bensínið lækkar í næstu viku á Íslandi, er það vegna þess að fólk dó og eftirspurnin minnkaði.
“Hvað svo…” spyrja milljónir manna, leitandi að nýju normi. Í von um að jafnvægi komist að nýju á líf þeirra. Það mun taka vikur, mánuði eða ár. Breytt heimsmynd, ólýsanleg reynsla og óttablandin upplifunin eru óafmáanleg. Sólin mun rísa á ný, en hún mun skína á nýjan hátt í lífi margra.
Það er í þessum aðstæðum sem ég get gert fátt annað en að biðja. Jafnvel þó ég sé reiður þeim Guði sem ég trúi á, jafnvel þó ég skilji ekki af hverju þessi sársauki á sér stað, af hverju þjáningin er óréttlát og blind. Bænin hjálpar mér að staldra við, hugsa um ábyrgð mína en jafnframt smæð, hjálpar mér að sjá von í vonleysinu.
Einhver kynni að segja að bænin sé gagnslaus, hún breyti engu, skili engu. Það er einfaldlega ekki rétt, bænin breytir a.m.k. mér. Ég vona að hún gefi öðrum kraft á einhvern hátt sem ég get ekki útskýrt. Hvort sú breyting byggi á sjálfsblekkingu eða raunverulegum anda Guðs, er viðfang trúarinnar. Ég trúi.
Hálfgert “dejá vu“.
En gætirðu frætt mig um hvernig þú munt biðja til guðs varðandi þessar náttúruhamfarir? Ætlarðu að biðja guð um að gera eitthvað?