1. Mósebók 5. kafli

Nú er komið að fyrstu ættartölu Biblíunnar og það vekur athygli að allir urðu þeir fremur gamlir sem nefndir eru. Ég hef alltaf verið skotinn í hugmyndinni að talan sem nefnd sé, eigi við mánuði (tungl) en ekki ár (sól). Það hins vegar gengur vart upp þegar haft er í huga að þá var Kenan um 6,5 árs þegar hann átti sitt fyrsta barn.Einnig er hugsanlegt að hér sé verið að vísa til mismunandi samfélagshópa. Þannig sé hver ætliður í raun tákn fyrir ráðandi ætt og ættartalan áminning um sameiginlega uppruna.

Einhvern tímann hefði ég sjálfsagt velt fyrir mér talnamynstrunum í textanum, og kannski er í lagi að skrifa upp runurnar (eða eru það raðir) sem koma fyrir.

  • Aldur við fæðingu sonar: 130 – 105 – 90 – 70 – 65 – 162 – 65 – 187 – 182 – 500.
  • Ævidagar: 930 – 912 – 905 – 905 – 910 – 895 – 962 – 365 – 969 – 777.

Þá er hægt að halda því fram að hér sé á ferðinni sambland mismunandi heimilda og hefða sem myndi í sjálfu sér enga skýra heild. Þannig hafi samfélög í frjósama hálfmánanum átt sagnir af mismunandi forfeðrum sem hafi verið steypt í eina ættartölu. Þessu til stuðnings er hægt að benda á Enok, sem er sá eini sem ekki er sagður hafa dáið heldur hafi verið hrifinn burt af Guði. Enok þessi varð 365 ára og gæti sem best verið vísun í helgisögn um sólguð, sem af einhverjum ástæðum hefur fundið sér leið inn í ættartöluna.

Hver sem ástæða og uppruni ættartölunnar er, þá myndar hún forleikinn að sögunni um Nóa og syni hans þrjá, Sem, Kam og Jafet.

One thought on “1. Mósebók 5. kafli”

  1. Ég hlakkaði til að sjá hvað þú segðir um þetta. Ég vildi gjarnan heyra hvað fólk ,sem reynir að verja óskeikulleika biblíunnar með því að segja að sköpunarfrásagan sé bara helgisögn enda einhvers konar ljóð, segir um þennan kafla. Þar sem Adam kallinn er í ættartölu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.