Naomi kemst ekki upp með nafnbreytinguna úr fyrsta kafla, alla vega ekki hjá sögumanni Rutarbókar. Hún er ennþá Naomi, sama hvað sjálfsásökunum í fyrsta kaflanum líður. Tengdadóttirin Rut reynist betri en engin á nýjum stað og hjálpar tengdamóður sinni við að koma nauðsynjum í hús.
Ég velti fyrir mér hvort að stolt Naomi og sjálfsásökun komi í veg fyrir að hún leiti hjálpar, því 2. kaflinn kynnir til sögu ríka ættingjann sem kemur aðstoð til skila fyrir milligöngu Rutar. Vissulega má lesa einhvers konar kynferðislega spennu inn í samskipti Rutar og Bóasar í þessum kafla, en það má allt eins skilja samskipti þeirra sem svo að Bóas sé að uppfylla hlutverk sitt sem verndara stórfjölskyldunnar.
Þannig sjái Bóas tækifæri til að hjálpa Naomi sem er of stolt til að kalla eftir aðstoð.