Að lesa Biblíuna

Það er ekki auðvelt að lesa Biblíuna. Þegar við setjumst niður með bókina þá eru nefnilega ótal gleraugu sem við getum notað. Þannig hljótum við alltaf að leitast við að skilja hvað höfundurinn er að reyna að segja með því sem hún/hann skrifar. Slíkt kallar okkur til að finna út allt sem hægt er um höfundinn, aðstæður hans/hennar, hjúskaparstöðu, menningarumhverfi, aldur og fyrri störf. Þegar kemur að Biblíunni þá eru þessar upplýsingar í besta falli brotakenndar og oftast ekki til staðar.

Við lesum Biblíuna líka í gegnum mismunandi túlkunarlykla. Þannig horfa flestir kristnir á einn eða annan hátt á texta Gamla Testamentisins í gegnum líf og starf Jesús Krists eins og það kemur fram í Guðspjöllunum og að einhverju leiti í bréfum Páls og annarra. Túlkunarlyklarnir eru samt sjaldan mjög greinilegir og engin getur notast við líf og starf Jesús Krists eitt og sér. Þannig fléttast saman líf og starf Jesús Krists, reynsla fátækra bænda í Suður-Ameríku og katólsk akademísk guðfræðihefð í skrifum Frelsunarguðfræðinga, feminísk guðfræði, fléttar á stundum saman lífi og starfi Jesú Krists við lífsreynslu sjálfstæðra og menntaðra kvenna á Vesturlöndum, meðan womanist guðfræði í Bandaríkjunum leitast við að flétta inn í heildarmyndina lífsreynslu svartra kvenna, sem oft tilheyra lægri stéttum samfélagsins.

Lestur Biblíunnar er alltaf háður hefðum, venjum, reynslu og skilningi lesandans. Að halda öðru fram er blekking. Trú sumra upplýsingamanna á að hægt sé að komast að endanlegum sannleika um alla hluti er einfaldlega röng. Það merkir þó ekki að við eigum að gefast upp í tilraun okkar til að nálgast merkingu og vilja Guðs eins og hann kemur fyrir í Biblíunni.

Frá sjónarmiði þess sem trúir á almáttugan Guð sem er öllu æðri og meiri, þá gengur hugmyndin um að Orð Guðs sé á einhvern hátt endanlegt (í merkingunni að hægt sé að öðlast á því endanlegan skilning) einfaldlega ekki upp. Því ef slíkt væri raunin þá væri Guð aðeins enn eitt endanlegt viðfangsefni mannskepnunnar og því ekki guð.

Lestrarverkefnið mitt hér á iSpeculate er þannig háð því hver ég er, háð menntun minni og bakgrunni í kristilegu starfi. Það er takmarkað af þeirri staðreynd að ég tilheyri næstum öllum forréttindahópum mannkyns sem hægt er að tilheyra. Ég er reyndar ekki ljóshærður og hef ekki blá augu, en að næstum öllu öðru leiti tilheyri ég þeim hluta mannkyns sem hefur það allra best hvort sem litið er til menntunar, hæðar, kyns, aldurs, kynhneigðar, fjölskyldustöðu, fjárhags, ríkisborgararéttar, “kynþáttar,” aðgengis að fjölmiðlum eða trúar.

Það er líka rétt að taka fram að ég er ekki að lesa Biblíuna á frummálinu, enda ekki lesfær á grísku né hebresku. Þó útiloka ég ekki að grípa í textagreiningar á hebresku eða grísku þegar eitthvað vekur sérstaka athygli mína. Við lesturinn mun ég að jafnaði notast við íslensku þýðinguna frá 1981 eða 2007, nú eða við ensku NRSV þýðinguna, allt eftir því hvað hendi er næst. Það er ekki útilokað að ég notist við aðrar þýðingar á stundum. Þannig er enska NRSV þýðingin alltaf við hendina á iPadinum, útkrotaða ferðabiblían mín er 1981 þýðingin og 2007 þýðingin er sú íslenska þýðing sem notast er við í kirkjunni og auðveldlega aðgengileg á netinu.

One thought on “Að lesa Biblíuna”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.