Ekki aðeins gátu tengdamæðgurnar leitað hjálpar fjölskyldunnar í 3. kafla. Í 4. kaflanum heyrum við að þær áttu jarðskika sem þær höfðu ekki aðgang að, líklega vegna stöðu sinnar sem ekkjur. Til að gefa þeim kost á lífi og réttindum fer því Bóas þá leið að taka sér Rut sem eiginkonu og gefa þeim, Naomi og Rut, tækifæri til að njóta réttar síns og nýta skikann sem með réttu var þeirra.
Bóas virðist auk þess ákveða að gefa eftir stöðu sína sem ættfaðir til að viðhalda nafni og ætt Naomi í gegnum Rut. Þannig er tekið fram að sonur þeirra hjóna var jafnan kallaður sonur Naomi.
—
Saga Rutar er fyrst og fremst saga Naomi, saga uppgjafar og upprisu, sorgar og gleði. Saga um líf okkar allra. Saga sem er sögð í samfélagi misréttis og réttleysis kvenna. Saga sem kynnir til sögunnar réttlátan mann sem leitast við að leyfa konum sögunnar að njóta þess sem er þeirra með réttu.
Rutarbók segir okkur líka í framhjáhlaupi að ættmóðir Davíðs konungs var útlendingur. Hún hafnar hugmyndum um hreinræktun, nauðsyn réttra gena og verndarstefnu. Hún er lofgjörð til fjölmenningar um leið og hún gleðst yfir stórfjölskyldunni. Annað þarf nefnilega ekki að útiloka hitt.