Hvert er markmið kirkjustarfsins?

Í upphafi svona innleggs er rétt að taka fram að þegar ég nota hugtök, eins og trú og trúarvissa er ég alltaf að vísa til kristinnar trúar eins og hún er boðuð í þjóðkirkjunni. Á sama hátt geng ég út frá ákveðnum kirkjustrúktur þar sem boðið er upp á sérskipulagt starf fyrir unglinga og ungt fólk.

Ég var einhverju sinni að tala við hóp presta í þjóðkirkjunni og talið barst að starfi kirkjunnar og hvernig hún næði til almennings. Við það tækifæri sagði einn í hópnum:

Kirkjan á að hætta að reyna að ná til hópsins 15-25 ára. Hér er um að ræða þann hóp sem er hvað uppteknastur í lífinu. Fólk er í skóla eða nýtt á vinnumarkaði, að mynda ný vináttusambönd, ástin blosar og auk þess er hópurinn að móta framtíð sína. Þetta fólk hefur ekki tíma fyrir kirkjuna og tími kirkjunnar er illa nýttur í að reyna að nálgast þetta fólk!

Ég ætla ekki að segja að þetta viðhorf sé algengt í kirkjunni en áhugavert er það. Og ekki er síður mikilvægt að þarna tekur prestur til máls um málefni ungs fólks og hefur rökstudda skoðun. En því miður er allt of lítið um að menn segi skoðanir sínar og leggi þær niður sem umræðugrundvöll.

Um markmið

Í upphafi máls er gott að byrja á byrjuninni, hvert er hlutverk kirkjunnar, eða með málfari markaðsfræðanna: Hvaða markmiðum er kirkjan að reyna að ná?

Markmiðssetning er lausnarorðið í æskulýðsstarfi kirkjunnar í dag. Ekki aðeins í merkingunni hvernig matreiðum við það sem við gerum í markaðinn, heldur ekki síður: Hvaða markmiðum hyggjumst við ná með starfi okkar.

Við getum talað um þrenns konar markmið leiðtoga í kirkjunni og í æskulýðsstarfi:

  1. Trúarleg
  2. Félagsleg
  3. Viðskiptaleg

Markmið æskulýðsleiðtoga getur t.d. verið að vinna með skólanum við getum kallað viðskiptalegt markmið eða köllun til að boða ákveðið gildismat sem væri félagslegt eða trúarlegt markmið.

Eins getur sóknarnefndin haft sín markmið, t.d. að vera með æskulýðsstarf eins og allar hinar kirkjurnar sem er félagslegt markmið eða að fá ódýrt vinnuafl í formi þátttakenda í æskulýðsstarfi til að raða upp stólum í kirkjuna sem getur verið viðskiptalegt.

Mikilvægt er að ábyrgðaraðilar á starfi kirkjunnar meðal ungs fólks séu sér meðvitaðir um hvaða raunverulegu markmið liggi að baki starfinu sem unnið er.

Ef við gefum okkur að markmiðið sé boðun trúar og/eða fræðsla um trú. Þá er mikilvægt að spyrja hvernig slík fræðsla getur farið fram. Hvernig boðum við unglingum trú?

Þekking-Skilningur-Upplifun

Ég hyggst hér skipta Guðstrú unglinga í þrjá þætti, sem eru þekking, skilningur og upplifun.

Þekking er þannig ákveðin kunnátta sem við tengjum trúnni á Guð. Það að kunna Faðir Vorið, Trúarjátninguna, þekkja söguna um týnda soninn o.s.frv.

Skilningur er þá það að skilja merkingu Faðir vorsins og Trúarjátningarinnar ásamt því að skilja hvað Jesús kennir okkur með sögunni um týnda soninn.

Þriðji þátturinn, upplifunin er þá það að fara með Faðir Vor og vita Guð sem hlustanda, játa trú sína með orðum Trúarjátningarinnar og treysta þessum Guði eða finna sig í hlutverki einhverrar persónu sögunnar um týnda soninn.

Tveir síðarnefndu þættirnir byggja á því að einstaklingurinn sem um er að ræða geti hugsað huglægt. Hann geti tileinkað sér hugtök eins og fyrirgefning og kærleikur án þess að þurfa að tengja þau við ákveðna atburði. Einnig gerir upplifunin þá kröfu til einstaklingsins að hann geti sett sig í spor annarra, geti áliktað um hvernig aðrir hugsa og líður.

Hæfileikinn til að hugsa huglægt og setja sig í annarra spor er grundvallarþáttur í þroska unglingsáranna. Á árunum 13-18 ára er unglingurinn að móta þessa hæfileika og á þessum árum öðlast hann færni í að takast á við efasemdarspurningar og heimspekileg hugtök.

Á þessum árum lærir unglingurinn líka að foreldrarnir eru ekki fullkomnir og við það fer unglingurinn að leita eftir öðrum fyrirmyndum og endurskilgreina hver hann er. Um leið er ekkert algilt lengur, allt er metið á mælistiku vantrúar eða efans, og eina leiðin til að komast fram hjá þeirri mælistiku er með múgsefjun eða hópstemmningu, þar sem unglingurinn er ekki lengur einstaklingur heldur aðeins hluti af hóp.

Mælistika vantrúar eða efans leitar sérstaklega að ósamræmi, hræsni og feluleik, og því er nauðsynlegt ef ná skal til einstaklingsins að viðurkenna vanmátt sinn og eigin bresti.

Aftur að markmiðunum

Ef við viljum að unglingarnir / ungmennin skilgreini sig sem kristna eða kirkjufólk, þá verðum við að koma aftur að markmiðunum. Af hverju viljum við það?

  • Erum við að forða þeim frá eiturlyfjum?
  • Erum við að setja inn RÉTTAR siðferðisskoðanir?
  • Erum við að reyna að öðlast jákvætt viðhorf samfélagsins með því að annast unglingana sem allir eru hræddir við?
  • Erum við að reyna að forða þeim frá eilífri glötun í helvíti?
  • Eða er markmiðið eitthvað allt annað?

Annar þáttur sem mótar boðunina er markhópurinn. Ætlum við alltaf að ná öllum?

Ég segi stundum frá því að þegar ég var í KSS (Kristilegum skólasamtökum) vorum við að hanna auglýsingaplakat. Plakatið var að okkar mati nokkuð fyndið, gamall maður að spila á banjó á götu í Danmörku og undir yfirskriftin “Við viljum þig fyrir vin”. Plakatið olli nokkrum umræðum, og sterkustu rökin gegn því voru þau að sá sem ekki hefði húmor fyrir því og læsi ekki upplýsingatextann, myndi halda að um væri að ræða félag fyrir aldraða banjóspilara og kæmi því aldrei á fund.

Við svöruðum rökunum á eftirfarandi hátt:

Sá sem ekki hefur húmor fyrir plakatinu mun ekki finna sig í KSS, og því allt í lagi að hann mæti ekki. Við orðuðum þetta reyndar ekki svona pent þá.

En punkturinn sem ég vil koma á framfæri með þessari sögu er einfaldlega, ungt fólk er mismunandi, boðun til þeirra þarf að fara fram á mismunandi hátt. Hið sama hentar ekki öllum.
Ef við einföldum myndina mjög má segja að hún sé svona:

Tvívíð trúarafstaða

Einstaklingurinn sem hafnar Guði af röklegum ástæðum þarf annars konar umræðu en sá sem hafnar honum stemmningarinnar vegna.

Því tel ég að þrátt fyrir að markmið Krist með starfi kirkju sinnar…

  • Vellíðan allra
  • Samfélag Guðs og manns
  • Að við öll finnum okkur sem Guðs börn
  • Að við sýnum virðingu og væntumþykkju hvert til annars.

…séu algild og alltaf viðeigandi, geti undirmarkmið starfsins þurft að vera mismunandi eftir því hver markhópurinn er. Hér er reyndar hægt að velta upp hvort að við getum sagt að kirkjan sé ein ef hún er öll skipt niður í hópa, og það er mjög mikilvægt að við skiljum að markmið hópastarfs er ekki aðgreining, heldur styrking allra.

Markmið Krists

Hér á undan talaði ég um það sem ég kalla markmið Krists:

  • Vellíðan allra
  • Samfélag Guðs og manns
  • Að við öll finnum okkur sem Guðs börn
  • Að við sýnum virðingu og væntumþykkju hvert til annars.

Oft er talað um fullkomnu frumkirkjuna, þar sem allir deildu með sér öllu og lifðu saman í kærleika Krists. Sú kirkja var að sjálfsögðu ekki fullkominn. Menn deildu um kenningar. Sumum hópum fannst þeir skyldir útundan og svo framvegis. En þar var samt um að ræða samfélag.

Heilbrigt trúarlíf þar sem þekking, skilningur og upplifun fara saman, þarfnast samfélags þar sem fólk getur komið fram með skoðanir sínar, deilt um þær, hlegið saman, grátið saman. Það krefst samfélags þar sem einstaklingurinn fær athygli, þar sem allir fá að glíma við upplifanir í trúarlífi sínu. Heilbrigt trúarlíf þarfnast samfélags þar sem einstaklingurinn fær að finna sig sem mikilvæga sköpun Guðs, svo ég notist við fallegan frasa.

Slíkt er ekki hægt að gera með múgsefjun, hvort sem heilagur andi er að verki eður ei. Slíkt á sér heldur ekki stað í messu þar sem fallegur kór syngur við undirleik góðs organista og síðan fara allir til síns heima. Til að upplifanir trúarlífsins nái að festa rætur og öðlast merkingu, þarf einstaklingurinn að vera í nánu samfélagi fólks sem metur hann og lætur hann sig varða eins og hann er.

Niðurstaða

  • Markviss boðun til ungs fólks í nútímaþjóðfélagi á sér ekki stað á fjöldasamkomum, þar sem náð er fram góðri stemmningu og boðið fram til fyrirbænar. Ekki ef áhrifin eiga að vera langvarandi.
  • Markviss boðun til ungs fólks í nútímasamfélagi á sér ekki stað í hnakkasamfélagi sunnudagsmessunnar þar sem allir fara heim strax að lokinni messu.
  • Markviss boðun til ungs fólks fer ekki fram með fyrirlestrum einstaklinga um rétt og rangt.
  • Markviss boðun til ungs fólks fer fram í smærri hópum, þar sem ungt fólk hefur tækifæri til að koma og deila með öðrum hugsunum sínum og segja frá væntingum sínum og þrám.
  • Markviss boðun til ungs fólks fer fram í samskiptum þeirra við einstaklinga sem eiga lifandi fordómalausa og kærleiksríka trú, trú sem mótar lífið.
  • Markviss boðun til ungs fólks fer fram með málefnalegri og kærleiksríkri umræðu, þar sem allir koma jafnir til leiks.
  • Markviss boðun til ungs fólks nær árangri þegar Jesús Kristur leiðir starfið og skipulegjendur og þátttakendur skilja og vita hver markmiðin eru.

E.s. Presturinn sem ég nefndi í upphafi gleymdi einu þegar hann taldi starf kirkjunnar með ungu fólki bagga á kirkjunni. Ef ungt fólk skilgreinir sig ekki sem kirkjufólk þegar það er að móta framtíð sína, þá er ég viss um að margt af því gerir það aldrei.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.