Sparnaðarleiðin “sjálfboðin þjónusta”

Á liðnu aukakirkjuþingi var bent á mikilvægi sjálfboðinnar þjónustu á lista yfir mögulegar leiðir til sparnaðar í þjóðkirkjunni í ljósi breyttra fjárhagsforsenda. Ég hef tvívegis síðan þá skrifað langlokur í svarhala Facebook um málið, en ákvað að taka saman þanka mína hér.

Í upphafi er mjög mikilvægt að taka fram að ég held að það sé öllum ljóst að safnaðarstarf framtíðarinnar í íslensku kirkjunni verður að byggja meira á sjálfboðinni þjónustu. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert. Það að fá einhvern til að gera eitthvað frítt í sparnaðarskini er ekki það sama og að virkja fólk til sjálfboðinnar þjónustu.

Þannig má ekki líta á sjálfboðna þjónustu sem sparnaðarleið eða vopn til að halda niðri launum. Markmið sjálfboðinnar þjónustu á fyrst og fremst að vera tækifæri fyrir einstaklinga til að hafa áhrif á umhverfi sitt, ekki kvöð til að halda kostnaði niðri. Að setja aukningu sjálfboðinnar þjónustu inn á lista yfir sparnaðarleiðir Kirkjuþings gefur þannig röng skilaboð um gildi og eðli slíkrar þjónustu.

Ef við viljum spyrna við og krefjast svars við spurningunni hvort það felist sparnaður í aukinni sjálfboðinni þjónustu, þá er svarið bæði og, já og/eða nei. Það er ómögulegt að vita, enda er markmið sjálfboðinnar þjónustu ekki fjárhagslegt. Í raun má segja að ef markmið safnaðarstarfs er útvíkkun starfs, þá þýðir það aukinn kostnað, ef hins vegar hugmyndin er viðhald ríkjandi ástands, þá geti sjálfboðin þjónusta sparað söfnuðinum fé.

Það er vonandi öllum ljóst að það fylgir kostnaður og fyrirhöfn sjálfboðinni þjónustu. Sjálfboðin þjónusta sem er gefandi fyrir þá sem sinna henni kallar á vel skilgreinda umgjörð, skýra verkaskipan þar sem ábyrgð og völd fara saman, aðgengi að upplýsingum o.s.frv.

Það er einn kostnaðarliður í bókhaldi flestra safnaða á höfuðborgarsvæðinu sem er sérstaklega krefjandi og kallar á vandaða nálgun þegar kemur að umræðunni um sparnað, sjálfboðna þjónustu og rétt/röng skilaboð. Sá liður er kirkjukórastarf.

Það að vera í kirkjukór inniheldur öll mikilvægustu “element” góðrar sjálfboðinnar þjónustu. Hér er um að ræða vel skilgreint verkefni, með skýrum tímamörkum, góðum félagskap, verkefnið er krefjandi og metnaðarfullt, veitir tækifæri til aukins þroska, býður upp á möguleika á að vinna með fagfólki í tónlist og er frábær leið til að gefa af sér. Í hverri viku taka þúsundir Íslendinga þátt í kórastarfi um allt land og borga jafnvel þátttökugjöld upp á tugir þúsunda.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum byrjuðu söfnuðir á höfuðborgarsvæðinu að borga fólki fyrir kirkjukóraþátttöku upp úr 1995. Þessi kostnaður nemur í dag allt að 3 milljónum á ári í einstökum kirkjum (jafnvel meira).

Vandamálið hér er ekki kostnaðurinn við verkefnið, þrátt fyrir að hann sé mikill, heldur að tækifærið til sjálfboðinnar þjónustu hefur verið skaðað. Þannig er mjög óæskilegt að leiðrétting á þessum mistökum eigi sér stað í nafni sparnaðar, þar sem slíkt gefur í skin að söfnuðurinn teldi eðlilegt að greiða fyrir kórstarf ef peningar væru fyrir hendi. Það sé eðlilegt að inna af hendi greiðslu fyrir öll verkefni í kirkjunni (ef peningarnir væru bara til).

Mark Powell nálgast þetta vandamál í bók sinni Giving to God, þar sem hann gagnrýnir harðlega foreldra sem segja börnum sínum að það sé ekki hægt að kaupa alskonar, vegna þess að þau hafi ekki efni á því. Með því, segir Powell, er verið að gefa í skin að foreldrarnir myndu veita sér allt og alskonar bara ef peningarnir væru til.

Raunveruleikinn er hins vegar sá að jafnvel þótt við hefðum efni á öllu sem okkur dettur í hug, þá merkir það ekki að við þurfum/ættum endilega að leyfa okkur það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.