Í annars frábærri grein Dr. Gunnars Kristjánssonar um stöðu kirkjunnar á Íslandi, þá bindur hann væntingar sínar um framtíðina sterkum böndum við þjóðkirkjuhugmyndir Schleiermachers. Í túlkun sinni á þjóðkirkjuhugtakinu leggur Gunnar ofuráherslu á að
Þjóðkirkja vísar… til ákveðinna guðfræðilegra viðhorfa: til opinnar, breiðrar og umburðarlyndrar kirkju í nánu sambandi og í eindreginni þjónustu við þjóðina. Kirkjan er að þeim skilningi fjarri því að vera „ríki í ríkinu“ sem lætur sér „veraldlegu menningu“ í léttu rúmi liggja og er að sama skapi fjarri því að bera einkenni vakningarhreyfingarinnar sem markar sér ákveðin völl innan samfélagsins með sinn „rétta“ boðskap.
Þetta er vissulega falleg og gjöfug hugmynd. Dr. Gunnar fjallar um hvernig slík guðfræði lætur sér annt um menningu samtímans, samfélagsgerð og tilvistarspurningar, tekur þátt í helstu hátíðum samfélagsins, eða eins og Dr. Gunnar segir:
Margir telja að sterkustu einkenni þjóðkirkjukristindómsins séu embættisverk prestanna: skírn, ferming, hjónavígsla og útför, þar eru væntingar miklar, þar er fólkið saman komið. Þar verður hlutverk prestanna að dómi margra guðfræðinga sífellt mikilvægara og þar njóta þeir trausts ef marka má þann stöðugleika sem tengist þessum þætti í þjónustu safnaðanna.
Slík kirkja gengur út frá viðteknum gildum samfélagsins og telur það hlutverk sitt að styrkja þau og styðja. Þetta er ekki styrkur eins og Dr. Gunnar heldur fram, þvert á móti veikleiki þjóðkirkjuhugmyndarinnar kemur hér hvað skýrast í ljós. Þjóðkirkja hefur tilhneigingu til að styðja við ríkjandi ástand, hvert svo sem það er, svo mjög að hún missir spámannlega rödd réttlætisins. Það var enda ekki hugmynd þeirra sem komu þjóðkirkjunni á dagskrá að kalla eftir réttlæti heldur eins og Dr. Gunnar bendir á:
Þeir sem settu þjóðkirkjuna á dagskrá treystu henni til að standa vörð um lífsgildi sem voru almennt tekin gild í samfélaginu. Þeir vildu vel menntaða og víðsýna presta til þess að þjóðkirkjan gæti sinnt fjölþættu hlutverki sínu í samfélaginu og fjölþætt safnaðarstarf í vaxandi þéttbýlissamfélagi. Trúin snýst ekki um að afstöðu mannsins til trúarkenninga, hinar djúpu rætur hennar felast í leit mannsins að tilgangi lífs síns.
Í þjóðfélaginu í kjölfar upplýsingarinnar, á tímum framfara og þess sem fólk taldi bestu tíma allra tíma, í heimi modernismans, var skiljanlegt að ríkjandi lífsgildi skyldu varin af krafti og menntaðir og víðsýnir guðfræðingar væru best til þess fallnir. Tími pósítivismans er hins vegar liðinn. Víðsýni sem er bundin af trúnni á stöðugar framfarir hefur einfaldlega runnið sitt skeið á enda.
Það má öllum vera ljóst að “pósitivisminn” og þjóðkirkjuhugtakið sem varð til í ægibirtu bjartsýninnar og fullvissu þess að Evrópubúar ættu öll svör við spurningum allra (eða væri næstum búin að finna þau) er illa búið til að takast á við fjölhyggjusamfélagið. Krafan um að vera vettvangur allrar þjóðarinnar leiðir því annað tveggja til tómhyggjukirkju, þar sem allt er leyft og ekkert skiptir máli, eða til kirkju sem tekur að sér að skilgreina hverjir séu þjóðin, út frá því hverjir nýta sér þjónustu hennar.
Þjóðkirkjuhugtakið er vandmeðfarið, ég hallast reyndar að því að öll forskeyti framan við orðið kirkja leiði okkur í ófærur. Það á ekki síst við hugtakið þjóð, sem í guðfræðilegu samhengi er tengt sterkum böndum við útvalningu, sérstöðu, við fyrirheiti Guðs til fáeinna. Þannig kallar hugtakið þjóð á spurninguna, hverjir eru ekki þjóðin? Fyrir hvern er kirkjan ekki? Vissulega er það ekki ætlun neins að nota hugtakið á þann hátt, en það er óumflýjanlegt, sagan kennir okkur það.
Viðbrögð við: Í öldudal óvissunnar – Trúin og lífið.