Umhyggja, vonbrigði og reiði

Þankar vegna skrifa formanns Framsóknarflokksins í Morgunblaðinu 4. september 2010.

Margir hafa tjáð sig um málefni þjóðkirkjunnar síðustu vikur, margt gott hefur verið sagt, og annað miður fallegt látið fjúka. Þegar formaður Framsóknarflokksins kvaddi sér hljóðs í dag, ásakaði fréttamenn um annarlegar kenndir og minnti okkur sum með óbeinum hætti á ógeðfellt samtal Davíðs Oddssonar og Ólafs Skúlasonar um að athygli fjölmiðla væri eðli málsins samkvæmt alltaf tímabundin, þá fannst mér tímabært að leggja orð í belg.

Vissulega er rétt hjá Sigmundi að það sé mikilvægt að læra af mistökum fortíðar, en umfjöllunarefni síðustu vikna hafa að miklu leyti snúist um að horfast í augu við samtímann og vanmátt kirkjunnar til að takast á við erfið úrlausnarefni í dag. Vonbrigði, úrsagnir og reiði almennings snúast ekki fyrst og fremst um glæpi sem áttu sér stað fyrir 20-30 árum, heldur að kirkjan sem þau höfðu væntingar til og bera umhyggju fyrir skuli ekki geta horfst í augu við mistök og glæpi fortíðarinnar og horft til framtíðar.

Fréttaumfjöllunin er þannig alls ekki dæmi um illsku, heldur snýst um vonbrigði og niðurbrot á því trausti sem margir höfðu til kirkjunnar. Ein ástæða þessarar miklu umræðu er að innan þjóðkirkjunnar takast á ýmsir straumar og stefnur, og margir vígðir þjónar kirkjunnar hafa talið sig kallaða til að koma fram og halda á lofti sínum hugmyndum um hvernig kirkjan ætti að bregðast við. Þá er ljóst að á stundum hafa þessi innskot magnað umræðuna og hjálpað til við að halda athygli fjölmiðla og ekki alltaf verið kirkjunni til blessunar.

Það er kjaftæði að það sé flóknara fyrir kirkjuna að útskýra mál sitt en fyrir aðra. Eðli síns vegna á kirkjan ekki að þjóna neinu öðru en sannleikanum. Það eru engir “share holders” eða “stake holders”, engar spurningar um hámörkun hagnaðar sem þarf að meta. Kirkjan þarf ekki að fara undan flæmingi, má ekki tala hálfsannleik, ætti ekki að þurfa að muna síðustu lygi, á ekki að hræðast að viðurkenna mistök, á ekki að óttast hvað gerist ef…

Umræðan snýst um kirkjuna. Í því samhengi eru tilraunir til að benda á aðra algjörlega óviðeigandi og skipta í raun litlu máli. Jú, auðvitað þarf að fara að taka á kynferðisofbeldi alls staðar í þjóðfélaginu. Það er auðvitað ömurlegt að perrar vinni í skólakerfinu vegna þess að aldrei var gefin út formleg kæra gegn þeim. Slík dæmi fría samt kirkjuna ekki ábyrgð eða draga úr vandanum í kirkjunni.

Það er rétt hjá formanni Framsóknarflokksins að kirkjan hefur gert sumt vel og jafnvel betur en aðrir. Gott dæmi um það er auðvitað að kirkjunni tókst að losna við sr. Gunnar Björnsson úr starfi þrátt fyrir ömurlega og ranga niðurstöðu Hæstaréttar. En það sem vel er gert er einfaldlega ekki nóg þegar yfirstjórn kirkjunnar sýnir óöryggi, virkar hrædd og virðist hafa eitthvað að fela.

Innlegg Geirs Waage er ágætt dæmi um hvernig valdabarátta í kirkjunni og lélegur guðfræðiskilningur veldur því að mál eru í fjölmiðlum dögum saman. Innlegg Geirs var ekki gagnlegt á neinn hátt. Ef hugmynd hans var að fá faglega umfjöllun um eðli þagnarskyldunnar var tímasetningin afleit. Rökin sem hann kom fram með voru illa framsett. Þannig blandaði hann saman einkaskriftum og sálgæslu. Hann sniðgekk algjörlega hugmyndir um almennan prestsdóm þegar kemur að skriftum, og til að bæta um betur var hroki hans og ummæli um kollega sína skammarleg. En það má svo sem segja líka um suma populista í hópi presta sem fóru fram gegn Geir með rakalausum upphrópunum og vitleysisgangi. Ekkert af þessu var sök fjölmiðlafólks, nú eða almennings, nú eða einstaklinga í Vantrú. Vígðir þjónar kirkjunnar sáu alveg einir og óstuddir um að halda umræðunni gangandi og um að draga úr trausti til kirkjunnar, án nokkurrar utanaðkomandi hjálpar.

Ég get tekið undir með formanni Framsóknarflokksins að það er um margt miður að umræðan beindist ekki fyrr að þolendum sem ég vil frekar nefna sterkar hetjur sem lifðu af tilraun til sálarmorðs. Ástæða þess er samt heldur ekki hægt að rekja að öllu leyti til fjölmiðla. Kirkjan þagði og gekk ítrekað af vettvangi þegar hetjurnar komu fram með sögu sína.

Það dettur engum í hug að kirkjan sé ónýt vegna þess að starfsmaður hennar, jafnvel yfirmaður kirkjunnar gerist sekur um ógeðfellda glæpi, ekki frekar en að lögreglan í Svíþjóð sé ónýt vegna lögreglustjórans sem formaður Framsóknarflokksins nefnir til sögunnar í grein sinni. Umfjöllun fjölmiðla snýst hins vegar ekki einvörðungu um ógeðfellda glæpi fyrir 20-30 árum heldur máttleysi kirkjunnar í dag í að horfast í augu við sjálfa sig.

Kynferðisglæpir fyrirfinnast alls staðar í samfélaginu. Það má samt ekki missa sjónar af trjánum fyrir skóginum. Að hlífa kirkjunni við mistökum sínum og aðgerðarleysi, vegna þess að vandamálið er svo útbreytt er hörmuleg nálgun á ömurlegt mál. Annað þarf ekki að útiloka hitt. Ef formaður Framsóknarflokksins trúir því að frekari aðgerða sé þörf, þá er einmitt lag til að taka á málinu sem nú er í gangi og gera það almennilega upp, og halda síðan til móts við réttlátara samfélag. Réttlæti og breytingar eiga sér aldrei stað ef ekki er horfst í augu við það sem þegar hefur gerst.

Það er rétt að trúfélög hafa flest hver unnið frábært starf á Íslandi. En það starf byggir fyrst og fremst á því trausti sem félögin hafa. Það er auðvitað ósanngjarnt gagnvart þeim sem hafa unnið af trúfesti og kærleika, að það traust sé skert vegna atburðanna sem hafa verið til umfjöllunar síðustu vikur. Það er hins vegar ekki sök fjölmiðla einna. Það er sök allra þeirra sem sveigðu framhjá konunum sem lágu í vegarkantinum á leiðinni til Jerúsalem.

Vald hefur vissulega verið misnotað í þessu máli. Vald hins sterka, vald karla yfir konum, vald stofnanna og stjórnenda gagnvart einstaklingum sem undir þau heyra. Það er mikil von fólgin í því að loksins, loksins, loksins virðist rödd hinna raddlausu, saga þeirra kúguðu heyrast. Það má margt segja um fjölmiðla á Íslandi, en það er von fólgin í því að fjölmiðlar hafi notað vald sitt í þjónustu þess þjáða. Það er í raun og veru kraftaverk að hetjurnar sem lifðu af, fái loksins að segja sögu sína.

Það er sárt að vera vígður þjónn kirkjunnar í dag. Ég velti fyrir mér hvort eða öllu heldur hvernig ég brást. Ég spyr mig hvernig ég hefði betur getað verið málsvari þeirra sem voru undirokuð.

Ég veit sem er að það skilar engu að krefjast virðingar á ný, heimta fyrri stöðu, kvarta undan óþægindunum, harma það að heimurinn hafi breyst. Það lagar ekkert að aumka sér yfir óþægilegum spurningum eða minna á forna frægð. Lausnin felst í því að hlusta á þau sem við höfum skaðað, setjast niður með þeim sem við höfum áður gengið yfir á skítugum skónum.

Sú þörf kirkjunnar fólks að vera fórnarlömb óréttlætis, þörf okkar fyrir að kenna öðrum um, tilraunir okkar til að beina sjónum annað, sjálfsvorkunin og sjálfhverfan koma í veg fyrir að við getum sest niður og hlustað.

6 thoughts on “Umhyggja, vonbrigði og reiði”

  1. Takk fyrir þessa vel skrifuðu grein og takk fyrir auðmýktina. Ég er þér hjartanlega sammála.

  2. Að sama skapi er innlegg sr. Sigríðar í Grafarholti þess eðlis að hleypa af stað þessari “prestapólitík” upp í nýjar hæðir með því að krefjast þess að biskup segi af sér. Nú, þegar umræðan beinist ekki lengur að kirkjunni eftir að hún hefur lofað bót og betrun þá kemur þetta innlegg frá henni sem er þess valdandi að viðhalda þessari umræðu áfram og þannig séð beina þessari umræðu inn í enn einn farveginn.

    Nú er þörf á samstöðu innan kirkjunnar og að sóknarbörn hennar sem og aðrir sjái að þar gangi ein heild sem stefni að sama markmiðinu. Það verður ekki gert með endalausum fullyrðingum og yfirlýsingum í fjölmiðlum.

  3. Ágæt grein hjá þér.
    Ég er sammála Magnúsi um að betur færi að prestar spöruðu yfirlýsingar. Mér fannst viðtalið við Sigríði á RÚV dæmi um óþarfa yfirlýsingagleði. Það er líklega rétt hjá henni að flumbrugangur biskups á þátt í úrsögnunum 1900 í ágúst. Hinsvegar er alls ekki ljóst að þær muni halda áfram ef biskup víkur ekki til hliðar. Ef hún hefur málefnalegar ástæður til þess að biskup víki, er ekki til einhver vettvangur innan Kirkjunnar til að kynna þá skoðun sína? Eða er hugmyndin að reyna að hamra járnið meðan almenningsálitið er heitt og kannski kynda undir kötlunum?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.