Árið eftir að ég hætti störfum sem framkvæmdastjóri ÆSKR (Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum), notaði ég mikið af tíma mínum í lestur og skrif um persónuleikabresti, velti upp spurningum hvað það merkti að kirkjan væri öllum opin og að allir væru velkomnir. Brennipunkturinn í vangaveltum mínum var mjög einstaklingsbundin og undir sterkum áhrifum einstaklingshyggju pietismans. Meðal annars skrifaði ég þetta hér (lítillega breytt):
Hvers vegna er ég hér?
Svörin eru mismunandi. Hvatinn til starfa er líkast til jafn fjölbreyttur og starfsmennirnir sjálfir. Um leið og starfsmenn leita svara við áðurnefndri spurningu er nauðsynlegt að vita að ekkert eitt svar er rétt og enginn getur gert kröfu um að forsendur allra séu þær sömu. Það er margt sem mótar gjörðir okkar og fær okkur til að sækja um starf í kirkjunni. Mikilvægt er að við tökumst á við áhrifavalda í lífi okkar til góðs og ills og reynum að vinna með þá.
Per Arne Dahl segir:
Það sem við erum meðvituð um getum við mótað áfram. Það sem við erum ómeðvituð um mótar okkur. Því sem við höfnum og neitum að horfast í augu við, getum við ekki breytt og bætt.
Hugmyndir Per Arne eru nátengdar hugmyndum Freud og fleiri um að bernskan og tengsl okkar við foreldra hafi grundvallandi áhrif á hegðun okkar síðar.
Gunnar Elstad talar um að við leitum sífellt svara við þremur spurningum bernskunnar:
• Elskar mig einhver?
• Vill einhver leika við mig?
• Get ég gert gagn?
Ef við höfum fengið neikvætt svar við þessum spurningum í bernsku, þá glímum við við þær allt lífið. Að takast á við þessar spurningar er nauðsynlegt til að við getum náð auknum þroska og tekist á við það sem mótar líf okkar. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir leiðtoga í kristilegu starfi að takast á við ofangreinar spurningar. Annars sé hætt við að leiðtogar noti börnin og unglingana til að uppfylla grunnþarfir sínar, fremur en að þeir leitist við að uppfylla væntingar barnanna.
Það er því forsenda þess að starfa í kirkjunni að viðkomandi sé tilbúin að takast á við hugmyndir og væntingar sjálfs sín.
Hvort sem að hvatinn til starfa er leit að viðurkenningu, þörfin til að gera gagn, launin eða þörf fyrir að ráða, er mikilvægt að starfsmenn geri sér grein fyrir honum og endurskoði hugmyndir sínar í sífellu. Jafnframt er mikilvægt að samstarfsfólk þekki vonir og væntingar hvers annars, þar sem opin skoðanaskipti og skýr staða einstaklinga hvers gagnvart öðru eru grundvallandi í góðum samskiptum.
Fjórði hvatinn sem hér var nefndur er bein afleiðing syndafallsins og felst í þörf mannkyns til að stjórna og ráða. Valdafíkn og þörfin fyrir að ráðskast með aðra getur leitt einstaklinga til starfa í kirkjunni, sérstaklega ef samskiptareglur eru óskýrar. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að unnið sé með tilfinningar viðkomandi og honum bent á óæskilegar afleiðingar hvata sinna. Nægi slíkt ekki, þarf að segja viðkomandi upp störfum.
Þessi texti er nú 10 ára gamall og undanfarin fjögur ár hefur nám mitt snúist mun meira um kerfislæg vandamál, fremur en vandamál einstaklinga og gjörðir þeirra. Þannig séu hegðunarmynstur einstaklinga og félagsleg tengsl þeirra oft og iðulega speglun á fjölskyldumynstri (sjá m.a. Bowen Family Systems Theory). Mynstur í félagsheildum endurtaki sig í sífellu og kerfið (e. system) móti einstaklingana og bindi þá í ákveðnum hlutverkum. Þannig sé lítið gagn í því að líta til svarta sauðarins eða finna til blóraböggul, vandinn felist fyrst og fremst í óæskilegu tengsla og samskiptamynstri. Það að fjarlægja blóraböggulinn leysi engan vanda, kerfið leiti í sitt hefðbundna ástand. Þess utan er það yfirleitt svo að “vandinn sem blasir við, er aldrei vandinn sem þarf að takast á við” (e. the issue is never the issue).
Báðar áherslurnar leggja áherslu á að einstaklingar verði sér meðvitaðir um stöðu sína. Annars vegar með spurningum Gunnars Elstad hér að ofan, hins vegar með því að greina stöðu sína í kerfinu.
Kenningar um fjölskyldumynstur ganga út frá að einstaklingar geti ekki breytt kerfum, heldur aðeins afstöðu sinni og meðvitund um kerfið sem þeir tilheyra. Slík breytt afstaða geti með tímanum haft áhrif á kerfið heild, en slíkt sé með öllu óvíst og ekki endilega markmið í sjálfu sér. Margaret Marcuson, í bók sinni Leaders Who Last, segir réttilega að “Það eina sem við getum gert eitthvað í er okkar eigin hegðun í kerfinu.”
Þeir þættir sem helst kalla á óbreytt ástand og viðhald kerfisins eru kvíði, ótti og óvissa. Á tímabili notuðu fræðimenn á sviði fjölskyldumynstursfræða hugtakið “kvíðalaust ástand” (e. non-anxious presence) um einstakling sem getur hjálpað til við að greina ástand viðvarandi kerfis og finna leiðir til að hjálpa kerfinu til að verða meðvitað um sjálft sig. Á síðari árum hafa sömu fræðimenn hins vegar áttað sig á að einu einstaklingarnir sem eru fullkomlega kvíðalausir eru dauðir, svo á síðari árum er meira og meira notast við “kvíðalítið ástand” (e. less-anxious presence), þar sem greinandinn er rólegri yfir aðstæðunum en aðrir í kringum hann.
Ofuráherslan á kerfislæga nálgun hefur kallast mjög ákveðið á við einstaklingshyggju píetismans í huga mínum undanfarin ár. Þannig hefur kerfislæga nálgunin tilhneygingu til að líta framhjá persónuleikatruflunum af genatískum ástæðum eða persónuleikabrestum sem eiga sér e.t.v. ekki félagslegar skýringar.
Á hinn bóginn hefur einstaklingshyggjan tilhneygingu til að einblína á meinta sökudólga og kalla eftir aðgerðum sem miða einvörðungu að því að fjarlægja óþægindin í stað þess að glíma “vandann sem þarf að takast á við.”
(Upphaflega birt á www.ispeculate.net)