Það er hollt að skipta reglulega um gír og endurskoða lífsmynstur sitt. Af þeim sökum hef ég ákveðið að taka mér vef-sabbatical um ótilgreindan tíma. Þar sem tölvu- og netnotkun er nauðsynleg vegna námsins míns get ég ekki einfaldlega slökkt á tölvunni minni. Þar af leiðandi hef ég sett mér ákveðnar reglur sem ég mun leitast við að fylgja.
- Ég mun ekki lesa fréttamiðla á vefnum, blogg-síður, tengslavefi eða almennar upplýsingasíður. Þetta felur í sér að ég mun ekki notast við Google-Reader-inn minn. Þannig mun ég fjarlægja 10 af 18 hlekkjum af Bookmark Toolbar og jafnframt endurskipuleggja og fjarlægja smáforrit á símanum mínum.
- Ég mun nota netið til að halda utan um glósur og við leitir í upplýsingagagnagrunnum í beinum tengslum við nám mitt og starf hjá Healthy Congregations. Þá mun ég notast við námsvef Trinity Lutheran Seminary.
- Ég mun áfram sækja upplýsingar um sýningartíma kvikmynda, veður og sjónvarpsdagskrá úr símanum mínum, þegar þörf krefur.
- Ég mun notast við bankavefi. Þá mun ég áfram versla hjá Amazon.com og iTunes, nota gCal til að skipuleggja dagatal fjölskyldunnar og Skype til að hafa samskipti við Ísland. Þá mun ég notast við tölvupóst líkt og áður.
Ég mun skrá hjá mér athugasemdir, vangaveltur og vandamál sem upp kunna að koma. Veffríið hefst formlega á miðnætti aðfararnætur 23. október 2009.