Grunnskólakennarinn minn Guðrún Olga Clausen hefur bent á að það skorti eyðublað til að fara fram á lánaniðurfellingu hjá bönkunum. Vegna þess að það á alltaf að hlusta á kennarana sína hef ég útbúið drög að slíku bréfi sem fólk getur nýtt sér ef það hefur áhuga.
—
Til lánanefndar .
Í ljósi óvæntra aðstæðna sem sköpuðust m.a. vegna óábyrgrar hegðunar ykkar sem fjármálastofnunar, lélegs eftirlits af hendi núverandi eigenda stofnunarinnar og óviðráðanlegra aðstæðna, sem stofnun ykkar hefði átt að vera kunnugt um að gætu skapast, þá fer ég fram á niðurfellingu á 50% af öllum skuldum mínum hjá stofnun ykkar og auk þess að felldir verði niður vextir og kostnaður vegna lána frá og með 1. október 2008.
Það er ljóst að samband mitt við ykkur, byggðist á trausti til þekkingar ykkar enda gáfuð þið ykkur út fyrir að vera sérfræðingar á sviði fjármála og meint sérfræðiþekking ykkar er ein ástæða þess að ég kaus að eiga í viðskiptum við ykkur.
Þar sem ráðgjafar ykkar leiðbeindu mér í ákvörðunum sem hafa leitt til gífurlegrar skuldaaukningar af minni hálfu, og ykkur hefði átt að vera ljós að gæti átt sér stað, fer ég hér með fram á að þið takið á ykkur hluta þess tjóns sem ég hef orðið fyrir.
Andleg vanlíðan mín vegna vanhæfni ykkar er að sjálfsögðu ekki metin til fjár. Mér er nú ljóst að traust mitt til ykkar var óverðskuldað og ég hefði átt að sjá að hagsmunir mín og þáverandi eigenda fjármálastofnunarinnar fóru ekki saman (breytt). Af þeim sökum er ég tilbúin(n) að bera helming skuldanna sjálfur, en ítreka að ég fer fram á að þið fellið niður hinn helminginn tafarlaust og jafnframt vexti, vaxtagjöld og innheimtukostnað frá og með 1. október 2008.Með vinsemd og ósk um skjót viðbrögð,(Nafn)(Kennitala)